Elfa bjargar mér úr öngstræti. Ný síða drengjanna.

Jæja það er vart að ég nenni að ávarpa þig lengur Blogga mín sem er til marks um vanrækslu mína í þinn garð.  Undanfarna mánuði hefur þú þjónað sem vettvangur upplýsinga um syni mína, þar sem áherslan hefur verið lögð á að kynna þann yngsta í hópnum og nú síðast helst með myndrænum hætti.  En eftir að feðraorlofinu lauk (fyrri áfanga) hefur lítill tími gefist til þessa.  Nú er svo komið að vinir og vandamenn vita ekkert hvort við erum að koma að eða fara eða hvernig mál ganga.  Þar sem útlit er fyrir áframhaldandi stöðnun af minni hálfu hefur ástkær eiginkona mín ákveðið að bjarga mér úr því öngstræti sem ég er komin í.  Hún hefur nú opnað síðu um drengina á barnanet.is þar sem síðan er http://www.barnanet.is/birgirogkolbeinn og eru vinir og vandamenn nú boðnir velkomnir.

Með sumarkveðju Árni


Kolbeinn Tumi var hann skírður.....

....með pompi og prakt heima í Svöluás á laugardaginn var að viðstaddri nánustu fjölskyldu sem telur vel á fyrsta hundraðið.

Kolbeinn Tumi nýskírður


Nýtt myndefni

Anna Steinunn.  Fyrirgefðu letina við myndainnsetningu.  Ég þarf að fara að virkja hana systur þína í þetta, svona á milli gjafa. 

Myndir af því nýjast á döfinni í Hafnarfirði.


Hvað er svo títt?

Jæja Blogga mín það er víst ekki hægt að halda þér í myrkrinu endalaust.

Samanber myndirnar sem þér hafa borist heilsast þeim yngsta bara vel og restin af fjölskyldunni lige mode (svona upp á dönsku).  Nú er ný afstaðin vigtun sem eru stórar stundir í lífi nýbakaðra foreldra.  Skyldi hann hafa þyngst???  Ætli ég sé að mjólka nóg???  Ætli hann sé svangur???  En viti menn, enn heldur drengurinn áfram að þyngjast og var nú mánaðar gamall orðinn 5430 grömm (sem gera tæp 500 grömm á einni viku) og hefur því þyngst frá fæðingu um 1260 grömm.  Sem sagt nytin eru góð hjá móðurinni og sogþörfin til staðar hjá þeim stutta.  Honum gengur svo sem vel að lengjast líka og mælist það best á fatnaðinum.  Ég er reyndar ekkert að segja Elfu frá því að ég setti bláa gallann á suðu.  Eins og vera ber erum við orðin nokkuð hreyfanlegri og erum til að mynda búin að fara í 4 göngutúra með þann stutta í vagninum auk heimsókna til ömmu Elínar og afa Arnþórs, Pálu og Guðnýjar.  Drengurinn ber sig bara vel í heimsóknum og stefnir í liðtæka selskapsveru.  Hann virðist þó ætla að halda í sið Birgis bróður síns hvað svefn varðar, en þar gildir reglan að sofa sjaldan og sofa hratt. 

Af Birgi Þór er allt gott að frétta og tekur hann stóra bróður hlutverkinu af mikilli alvöru.  Við spurðum hann hvort litli bróðir ætti ekki alltaf að vera hjá okkur.  Hann samsinnti því strax og sagði að litli bróðir mætti vera hjá okkur lengi lengi og bætti svo við að hann mætti vera svona lengiog rétti 10 fingur upp í loftið.  Til nánari skýringar þýða 10 fingur gríðarlega mikið og eru eiginlega óteljandi.  Unglingurinn (Hringur) tekur þessu öllu með mikilli yfirvegun og hefur markað sér sessinn sem hinn stóri og vitri í hópi þriggja bræðra.  Birgi þykir ekki amalegt þegar Hringur fer með hann á leikjasíður á netinu.  Þannig eru farin að koma tilsvör frá Birgi þess efni að hann þurfi aðeins að fara í tölvuna.

Sjálfur er ég nú búinn að vera heima við í mánuð og komið að lokum fyrri áfanga fæðingarorlofsins.  Þetta er búið að vera dásamlegur tími og ljóst að það mun taka einhverja daga að aðlagast bláköldum veruleikanum þarna handan við veggi heimilisins.  Reyndar hef ég nú alveg farið út fyrir hússins dyr og þá helst í hlaupaerindum sem er nýjasta dellan.  Hún er þannig til komin að við Gulli mágur vorum að ræða um langhlaup.  Ég sagði honum að áhuginn væri alveg til staðar en ég þekkti ekki svo vel til svona hlaupa æfinga og mér hentaði trúlega best skemmtiskokk í nágrenni heimilisins.  Það stóð ekki á stuðningi Gulla og næst þegar við hittumst var hann mættur með hlaupabók, hlaupaáætlun, forrit sem heldur utan um árangurinn og fullt af góðum ráðum.  Ekki nóg með að forritið væri á netinu heldur hefur Gulli aðgang að því líka og fylgist með að ég sé ekki að svíkjast undan.  Þannig eru nú á einum og hálfum mánuði hlaupnir kílómetrar orðnir 191 á 18 klukkustundum og 32 mínútum.  Planið gerir ráð fyrir hlaupum 5 daga vikunnar af mismunandi lengdum (í dag 6-16 km sem eykst jafnt og þétt).  Þrátt fyrir dyggan stuðning Gulla er alveg ljóst að ég væri ekki komin með þessa 190 km ef ekki væri fyrir stuðning ástkærrar eiginkonu minnar sem hefur óspart hvatt mig til að halda áfram og segir reglulega við mig að ég sé að verða svo slank, þannig að ég er farinn að trúa því.  Reyndar vill vigtin meina að það séu farin 5 kíló.  Þannig að þetta er allt hið besta mál.

Af minni ástkæru er allt gott að frétta þrátt fyrir einhæfar athafnir þennan mánuðinn.  Þar sem mjaltir og beygju skipti taka megnið af tímanum.  Brjóstagjöfin hefur gengið vel þrátt fyrir sár og stíflur í byrjun.  En þetta hefur ekki gengið átaka laust og er ég mjög stoltur af dugnaði hennar og elju.

Læt þetta duga Blogga mín.  Svo verður tíminn að leiða í ljós hvort ég hafi tíma fyrir þig samfara fjölgun heimilismeðlima og stífum hlaupaáætlunum.

Með ungbarna kveðju.

Árni


Fleiri myndir

Held áfram að mjatla inn myndir.  Ekki alveg búinn að vera nógu duglegur við þetta.

Hér koma þær.


Sumarið hafið með stæl

Með fjölgun barna kemur það glöggt í ljós hverjir í kringum mann skipta mestu máli. Þrátt fyrir ágæti Bloggu er hún nokkuð aftarlega á listanum en hefur síðustu daga fengið mikilvægt hlutverk við að miðla alheiminum myndefni af þeim ýngsta í hópi þriggja sona minna, og kann ég henni bestu þakkir fyrir.  Svona til að þakka Bloggu ómakið má ég til með að deila með henni atviki frá sumardeginum fyrsta síðastliðinn fimmtudag. 

Þannig var að 3/4 hlutar karlmanna heimilisins ákvað að skríða út úr brjóstaþoku heimilisins og demba sér í sund.  Ég náði mér í stóra tösku og dreif í hana handklæði, baðföt, sundhettu o.þ.h. fyrir okkur feðga.  Svo var stormað af stað.  Í tilefni af 100 ára afmæli Hafnafjarðarbæjar var frítt í sund og sundlaugin full (í orðsins fyllstu merkingu) af sundboltum með merki bæjarins.  Jæja eftir hefðbundin búningsklefastörf var skarinn drifinn í sturtu.  Hringur sér náttúrulega um sig sjálfan og dvelur ekki lengur í sturtu en brýna nauðsyn krefur.  Eftir að hafa þvegið Birgi og drifið hann í sundgallann var komið að mér.  Snögg sturta og svo vippaði ég mér í sundskýluna.... en hver djö......  Eitthvað hafði ég nú bætt á mig yfir meðgönguna en ekki svona mikið.  Ekki bara var skýlan þröng heldur komið á hana gyllt ásaumað O´Neil merki?!?!  Þetta var ekkert sundskýlan mín.....heldur bikiníbuxurnar hennar Elfu.  Nú voru góð ráð dýr.  Hringur farinn út í laug, skápurinn læstur og Birgir stóð skjálfandi fyrir framan mig og spurði hvort við ætluðum ekki að fara út í laug.  Þannig að það var ekki annað að gera en að bíta á jaxlinn, draga inn magann og storma út í laug.  Allt gekk það vel enda fremur fátt í lauginni.  Ég var feginn að komast ofan í laugina, þar sem það var öllu minna áberandi þegar ég þurfti að veiða skýluna út milli rasskinnanna, en mér varð á þessari stundu full ljós munurinn á karl- og kvensniði sundfatnaðar.  Allt lék í lyndi þar til Birgir fór að hafa orð á því að það væri orðið kalt í lauginni og hvort við ættum ekki að fara í heitapottinn.   Hummmm.....  Töluvert hafði nú sundlaugargestunum fjölgað þann tíma sem við höfðum svamlað um og sínu fleiri mæður en feður höfðu ákveðið að hefja sumarið með sundferð.  En á ný var það kuldi sonar míns sem rak mig af stað.  Hvort það var ásaumaða gyllta O´Neil merkið eða sniðið á baðtaui mínu veit ég ekki en þær urðu fremur kindalegar á svip þessar 10 stúlkur sem höfðu komið sér makindalega fyrir í setlauginni, þegar við feðgar bröltum ofan í.  Það var því lítið annað að gera enn að brosa bara á móti.  Málið leystist svo með vægum hlátri sem fór um setlaugargestina. 

Eigum við ekki bara að taka létta Pollý Önnu á þetta og seigja að það sé gott að geta glætt fram bros hjá samsveitungum sínum og hvað þá á sumardaginn fyrsta.

Þannig að hjá undirrituðum byrjaði sumarið með stæl.

 

Ný mappa undir nýjustu myndir af stubb.


Ein og ein ný mynd ratar inn í albúmið

Myndir af stubb

Nýtt dót fyrir foreldra

Jæja allt gengur samkvæmt bókinni.  Barnið vex en brókin ekki.  Miðað við það að pjakkurinn hafði aukið þyngd sína í 5-daga skoðuninni, hef ég ekki nokkra trú á öðru en að hann sígi vel í við viktun á morgun.  Sjáum til með það.

Við keyptum í dag nýtt "dót / græju fyrir foreldra" sem vafalítið á eftir að koma að góðum notum í framtíðinni; foreldrasjal að afrískri fyrirmynd (vænti ég).  Þetta er náttúrulega bara snilld.  Um er að ræða langan borða / dúk úr teygjanlegu efni sem maður vefur utan um sig og kemur barninu fyrir í.  Stórir fletirnir og teygjanleiki efnisins gerir það að verkum að þetta fer einkar vel bæði með foreldri og barn, hvort sem það er 3 daga eða 3 ára.  Sjá nýjar myndir.  Þessu mæli ég með.

Nokkrar nýjar í myndasafnið.


Ungbarnauppeldið allt að gera sig

Jú jú þetta er allt að gera sig.  Drengurinn drekkur, pissar og kúkar og þá eru allir glaðir; ekki satt!  Reyndar sefur hann eins og engill, að undanskilinni aðfaranótt miðvikudags þegar hann hélt móður sinni við efnið og krafðist matar á hálftíma fresti. 

Bæti við myndum í albúmið og reyni að henda inn nýjum jafn óðum, svo á meðan nenna og tími leyfir.

Myndaalbúm stubbs Árnasonar.


Nýr fjölskyldumeðlimur kominn í heiminn

Það skal tekið skýrt fram að hér er ekki verið að endurvekja samskiptin við frú Bloggu enda höfum við ekki átt skap saman síðustu mánuði.  Ég nýt þó aðstoðar hennar við að deila með heimsbyggðinni nokkrum myndum af nýjasta fjölskyldumeðlimnum.

Hann fæddist aðfaranótt mánudags kl. 04:37, vó 4170 gr. og var 54 cm að lengd.  Reyndar tók nokkurn tíma fyrir starfsfólk Landspítalans að finna út hvar þetta ætti nú allt að eiga sér stað þar sem 18 önnur börn höfðu ákveðið að koma í heiminn á þessum sama sólarhring. Okkur til mikillar hamingju enduðum við inni í Hreiðrinu á sömu fæðingarstofu og bróðir hans heilsaði heiminum í, fyrir rúmum 3 árum.  Allt gekk þetta eins og í sögu og heilasat þeim mæðginum bara vel.  Sjálfur hef ég það náttúrulega glimrandi gott enda get lítið gert í öllum þessu annað en að reyna að standa mig í stuðningsmannaliðinu.

Ég bæti inn myndum svona eftir því sem tími gefst.

Sjá myndir hér


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband