Sumarið hafið með stæl

Með fjölgun barna kemur það glöggt í ljós hverjir í kringum mann skipta mestu máli. Þrátt fyrir ágæti Bloggu er hún nokkuð aftarlega á listanum en hefur síðustu daga fengið mikilvægt hlutverk við að miðla alheiminum myndefni af þeim ýngsta í hópi þriggja sona minna, og kann ég henni bestu þakkir fyrir.  Svona til að þakka Bloggu ómakið má ég til með að deila með henni atviki frá sumardeginum fyrsta síðastliðinn fimmtudag. 

Þannig var að 3/4 hlutar karlmanna heimilisins ákvað að skríða út úr brjóstaþoku heimilisins og demba sér í sund.  Ég náði mér í stóra tösku og dreif í hana handklæði, baðföt, sundhettu o.þ.h. fyrir okkur feðga.  Svo var stormað af stað.  Í tilefni af 100 ára afmæli Hafnafjarðarbæjar var frítt í sund og sundlaugin full (í orðsins fyllstu merkingu) af sundboltum með merki bæjarins.  Jæja eftir hefðbundin búningsklefastörf var skarinn drifinn í sturtu.  Hringur sér náttúrulega um sig sjálfan og dvelur ekki lengur í sturtu en brýna nauðsyn krefur.  Eftir að hafa þvegið Birgi og drifið hann í sundgallann var komið að mér.  Snögg sturta og svo vippaði ég mér í sundskýluna.... en hver djö......  Eitthvað hafði ég nú bætt á mig yfir meðgönguna en ekki svona mikið.  Ekki bara var skýlan þröng heldur komið á hana gyllt ásaumað O´Neil merki?!?!  Þetta var ekkert sundskýlan mín.....heldur bikiníbuxurnar hennar Elfu.  Nú voru góð ráð dýr.  Hringur farinn út í laug, skápurinn læstur og Birgir stóð skjálfandi fyrir framan mig og spurði hvort við ætluðum ekki að fara út í laug.  Þannig að það var ekki annað að gera en að bíta á jaxlinn, draga inn magann og storma út í laug.  Allt gekk það vel enda fremur fátt í lauginni.  Ég var feginn að komast ofan í laugina, þar sem það var öllu minna áberandi þegar ég þurfti að veiða skýluna út milli rasskinnanna, en mér varð á þessari stundu full ljós munurinn á karl- og kvensniði sundfatnaðar.  Allt lék í lyndi þar til Birgir fór að hafa orð á því að það væri orðið kalt í lauginni og hvort við ættum ekki að fara í heitapottinn.   Hummmm.....  Töluvert hafði nú sundlaugargestunum fjölgað þann tíma sem við höfðum svamlað um og sínu fleiri mæður en feður höfðu ákveðið að hefja sumarið með sundferð.  En á ný var það kuldi sonar míns sem rak mig af stað.  Hvort það var ásaumaða gyllta O´Neil merkið eða sniðið á baðtaui mínu veit ég ekki en þær urðu fremur kindalegar á svip þessar 10 stúlkur sem höfðu komið sér makindalega fyrir í setlauginni, þegar við feðgar bröltum ofan í.  Það var því lítið annað að gera enn að brosa bara á móti.  Málið leystist svo með vægum hlátri sem fór um setlaugargestina. 

Eigum við ekki bara að taka létta Pollý Önnu á þetta og seigja að það sé gott að geta glætt fram bros hjá samsveitungum sínum og hvað þá á sumardaginn fyrsta.

Þannig að hjá undirrituðum byrjaði sumarið með stæl.

 

Ný mappa undir nýjustu myndir af stubb.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gleðilegt sumar kæra fjölskylda og til hamingju með nýja fjölskyldumeðliminn, myndarlegur ungur maður ;) Vonandi að við fáum að bera hann augum áður en of langur tími líður.

Frábær færsla Árni. Sumir hefðu einfaldlega þagað yfir þessu, ekki margir sem viðurkenna það að klæða sig í föt eiginkvenna sinna, en við förum ekki nánar út í það.

Kær kveðja til ykkar

Kolla, Kiddi og stelpurnar

Kolla Sjöfn (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 11:54

2 identicon

hehe þvílík snilld - gastu ekki bara klárað þetta og skellt þér í toppinn líka... ;)

kveðja úr Marteinslauginni

Dóri (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 16:07

3 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

 you made my day frændi.... þessi var yndislegur og eins gott að þú tókst ekki bara toppinn með . Ég ætla að taka mér kærkomið frá lærdómi frí og skoða betur myndirnar af nýjasta frænda mínum. Til hamingju með hann kæra fjölskylda.

Herdís Sigurjónsdóttir, 30.4.2008 kl. 09:03

4 Smámynd: Álfhóll

Árni minn, það var lagið! Dásamleg færsla, þú verður að sýna okkur þig í þessum aðstæðum þegar við tökum leðjuboltann um verslunarmannahelgina. 

Minnir dálítið á Kiddu vinkonu okkar á Álfhóli þegar hún fór í sund í nýja bolnum sínum. Hún skildi ekkert í því hvað hann var eitthvað óþægilegur þegar hún fór í honum ofan í laugina, einhvern veginn miklu óþjálli en þegar hún mátaði hann í búðinni.  Skildi heldur ekkert í svipnum á manninum sínum þegar hún mætti í pottinn, reynandi að hylja á sér brjóstin.  Við nánari athugun kom í ljós að hún hafði snúið honum öfugt, þannig að brjóstastykkið var á bakinu, en bakhlýrarnir að framan.  Bara gaman að svona uppákomum,  hefði ekkert á móti svona tilbreytingu í lauginni.

Dásamlegar myndir af litlum stubb og stórum bræðrum hans. Bestu kv. Gunna

Álfhóll, 30.4.2008 kl. 15:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband