Hvað er svo títt?

Jæja Blogga mín það er víst ekki hægt að halda þér í myrkrinu endalaust.

Samanber myndirnar sem þér hafa borist heilsast þeim yngsta bara vel og restin af fjölskyldunni lige mode (svona upp á dönsku).  Nú er ný afstaðin vigtun sem eru stórar stundir í lífi nýbakaðra foreldra.  Skyldi hann hafa þyngst???  Ætli ég sé að mjólka nóg???  Ætli hann sé svangur???  En viti menn, enn heldur drengurinn áfram að þyngjast og var nú mánaðar gamall orðinn 5430 grömm (sem gera tæp 500 grömm á einni viku) og hefur því þyngst frá fæðingu um 1260 grömm.  Sem sagt nytin eru góð hjá móðurinni og sogþörfin til staðar hjá þeim stutta.  Honum gengur svo sem vel að lengjast líka og mælist það best á fatnaðinum.  Ég er reyndar ekkert að segja Elfu frá því að ég setti bláa gallann á suðu.  Eins og vera ber erum við orðin nokkuð hreyfanlegri og erum til að mynda búin að fara í 4 göngutúra með þann stutta í vagninum auk heimsókna til ömmu Elínar og afa Arnþórs, Pálu og Guðnýjar.  Drengurinn ber sig bara vel í heimsóknum og stefnir í liðtæka selskapsveru.  Hann virðist þó ætla að halda í sið Birgis bróður síns hvað svefn varðar, en þar gildir reglan að sofa sjaldan og sofa hratt. 

Af Birgi Þór er allt gott að frétta og tekur hann stóra bróður hlutverkinu af mikilli alvöru.  Við spurðum hann hvort litli bróðir ætti ekki alltaf að vera hjá okkur.  Hann samsinnti því strax og sagði að litli bróðir mætti vera hjá okkur lengi lengi og bætti svo við að hann mætti vera svona lengiog rétti 10 fingur upp í loftið.  Til nánari skýringar þýða 10 fingur gríðarlega mikið og eru eiginlega óteljandi.  Unglingurinn (Hringur) tekur þessu öllu með mikilli yfirvegun og hefur markað sér sessinn sem hinn stóri og vitri í hópi þriggja bræðra.  Birgi þykir ekki amalegt þegar Hringur fer með hann á leikjasíður á netinu.  Þannig eru farin að koma tilsvör frá Birgi þess efni að hann þurfi aðeins að fara í tölvuna.

Sjálfur er ég nú búinn að vera heima við í mánuð og komið að lokum fyrri áfanga fæðingarorlofsins.  Þetta er búið að vera dásamlegur tími og ljóst að það mun taka einhverja daga að aðlagast bláköldum veruleikanum þarna handan við veggi heimilisins.  Reyndar hef ég nú alveg farið út fyrir hússins dyr og þá helst í hlaupaerindum sem er nýjasta dellan.  Hún er þannig til komin að við Gulli mágur vorum að ræða um langhlaup.  Ég sagði honum að áhuginn væri alveg til staðar en ég þekkti ekki svo vel til svona hlaupa æfinga og mér hentaði trúlega best skemmtiskokk í nágrenni heimilisins.  Það stóð ekki á stuðningi Gulla og næst þegar við hittumst var hann mættur með hlaupabók, hlaupaáætlun, forrit sem heldur utan um árangurinn og fullt af góðum ráðum.  Ekki nóg með að forritið væri á netinu heldur hefur Gulli aðgang að því líka og fylgist með að ég sé ekki að svíkjast undan.  Þannig eru nú á einum og hálfum mánuði hlaupnir kílómetrar orðnir 191 á 18 klukkustundum og 32 mínútum.  Planið gerir ráð fyrir hlaupum 5 daga vikunnar af mismunandi lengdum (í dag 6-16 km sem eykst jafnt og þétt).  Þrátt fyrir dyggan stuðning Gulla er alveg ljóst að ég væri ekki komin með þessa 190 km ef ekki væri fyrir stuðning ástkærrar eiginkonu minnar sem hefur óspart hvatt mig til að halda áfram og segir reglulega við mig að ég sé að verða svo slank, þannig að ég er farinn að trúa því.  Reyndar vill vigtin meina að það séu farin 5 kíló.  Þannig að þetta er allt hið besta mál.

Af minni ástkæru er allt gott að frétta þrátt fyrir einhæfar athafnir þennan mánuðinn.  Þar sem mjaltir og beygju skipti taka megnið af tímanum.  Brjóstagjöfin hefur gengið vel þrátt fyrir sár og stíflur í byrjun.  En þetta hefur ekki gengið átaka laust og er ég mjög stoltur af dugnaði hennar og elju.

Læt þetta duga Blogga mín.  Svo verður tíminn að leiða í ljós hvort ég hafi tíma fyrir þig samfara fjölgun heimilismeðlima og stífum hlaupaáætlunum.

Með ungbarna kveðju.

Árni


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með ammælið frændi minn!

Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 21:40

2 identicon

Þú ert sko lang smartasti hlauparinn, (næstum) allt í stíl   

Afmæliskveðja gamli minn..

þín sis P

Pála (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 22:21

3 identicon

Líst vel á hlaupaprógrammið en nú vill móðursystirin að norðan fá að sjá fleiri myndir af frændum sínum, takk fyrir! Bið að heilsa litlu systur, bestu kv. Anna Steinunn

Anna Steinunn Friðriksdóttir (IP-tala skráð) 15.5.2008 kl. 22:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband