Maður með mönnum og sigrar dagsins.

Sæl Blogga.

Ef ég er ekki orðinn flottur.......þá hvað!?!?  Satt best að segja maður með mönnum!  Ég á orðið 3 bloggvini og það er nú alls ekki svo slæmt.  Góð þreföldun úr engu.  Mér sýnist reyndar sumir bloggarar eiga miklu fleiri vini en ég.  Eiginlega alveg rosalega marga vini, en við erum ekkert að súta það Blogga.  Við bara höldum áfram tengslamynduninni hér í netheimum og sjáum hvort við eignumst ekki fleiri vini.

Í dag voru unnir stórir sigrar og öllu minni sigrar.  Einn af stórsigurinn verður að teljast sá að komast niður um 13,5 cm í verkefnastaflanum á skrifborðinu.  Þar kom nú ýmislegt við sögu svo sem: flugslysaáætlun fyrir Reykjavíkurflugvöll, flugverndarmál í Reykjavík og á Akureyri, flugslysaæfingar fyrir norðan og vestan, aðgangsheimildir flugvalla, útboðsmál og flugslysaáætlun fyrir Kosovo.  Sem sagt bara afkasta mikill dagur í vinnunni.

Þeir voru öllu minni sigrarnir í hreyfingunni.  Reyndar fór spretthlaupataskan með í bílinn í morgun en hið ótrúlegasta gerðist.  Töskunni var stolið úr bílnum skömmu fyrir hádegi, akkúrat þegar ég var að fara að nota hlaupabúninginn, en svo var búið að skila henni aftur þegar ég lagði af stað heim.  Ótrúlegt hvað aðrir eru tilbúnir að leggja á sig svo ég geti ekki farið út að hlaupa!  En ég læt ekki stoppa mig svo glatt.  Ég tek töskuna með á morgun og fel hana bara undir sætinu.

Upphafið á enda dagsins var svo fjölskyldu skemmtun og grill í Sjálandsskóla hjá Elfu.  Hoppukastali, stultur, kajakar og fullt af skemmtilegu fólki.  Þetta fannst Birgi ekki leiðinlegt og miðað við alla steinana sem hann afrekaði að kasta út í sjó má vænta þess að yfirborð sjávar hafi hækkað um einhverja sentimetra.  Ef þetta verður að áhugamáli hjá honum er eins gott að við búum í u.þ.b. 100 m.y.s.

Mér sýnist síðan að kvöldið stefni í þennan líka fína rómans.  Nú sitjum við hjónin við eldhúsborðið með sitt hvora fartölvuna fyrir framan okkur.  Elfa að vinna námsmat fyrir nemendur sína og ég að spjalla við þig Blogga mín.  Lof sé því að við lifum á tækniöld.

Með sigur kveðju.

Árni (spretthlaupari)


Sveitin. Það er málið.

Sæl blogga mín og gleðilega hátíð.  Ég hafði bara engan tíma til að sinna þér í gær (þó svo að hin konan í lífi mínu væri í stúdentshátíð í Skagafirði), þar sem við feðgarnir fórum í vísiteringu í gömlu sveitasæluna mína.

Þetta var hin skemmtilegasta ferð, eins og þær reyndar ávalt eru á þessar slóðir.  Sauðburður var náttúrulega í fullum gangi og þótti Birgi ekki lítið spennandi að sjá lömbin detta út úr mömmum sínum.  Hann þurfti að bæta vel í kjarkinn áður en hann lagði í að koma niður í mjaltabásinn, en þegar niður var komið skorti ekkert á viljann að fá að taka þátt.  Ég vissi reyndar ekki hvert Birgir ætlaði þegar hann áttaði sig á því að það væri hægt að kreista mjólk úr spenunum á kúnum.  Ekki nóg með að það kæmi þarna út mjólk, heldur var henni bara sprautað beint á gólfið eins og ekkert væri sjálfsagðara.  Það verður þá eitthvað ævintýrið að koma honum í skilning að það eigi bara að sulla mjólk á gólfið í fjósinu en ekki heima.

Hringur, stóri bróðir, var öllu æðrulausari með sveita störfin enda ekki ókunnugur á þessum slóðum.  Hann sá um að hafa ofanaf fyrir hundum bæjarins og er það ekki orðið neitt smá verk, þar sem hundar með fasta- og skammtíma búsetu í Dalsmynni nálgast nú fyrsta tuginn, enda bærinn orðinn þekkt þjálfunarstöð fyrir smalahunda.  Bikarar og verðlaunapeningar bera glöggt merki um góðan árangur.

Við þökkum bændum og búaliði í Dalsmynni góðar viðtökur.

 Með jarmandi góðri kveðju

Árni


Villtist inn á feminista blogg og fannst það fróðlegt

Hæ Blogga!  Já ætli ég kalli ekki bara þessa síðu, sem enn er að leit að tilgangi sínum, Bloggu. 

Ég var að flækjast um bloggsvæðið hennar Sóleyjar stór frænku minnar (Sóley bjargar heiminum) og mér til mikillar undrunar var þar að finna blogg og umræður fólks um jafnrétti kynjanna og femínisma (kom skemmtilega á óvart).  Ég er nú sammála henni Sóleyju frænku minni um margt.  Til dæmis það að við eigum öfluga feður þó svo að Biggi hafi verið öllu róttækari en Tommi við að koma sér upp sínu eigin fótboltaliði (með því að eignast 7 börn, sem síðar hafa ótrauð haldið uppi merkjum föður síns).  Ég vænti að við séu einnig um margt sammála í málum tengdum náttúruvernd.  Loks erum við vafa lítið  sammála um að jafn réttur fólks sé af hinu góða og þar með talið jafn réttur kynjanna.  Þar sem leiðir okkar trúlega skilja er í aðferðafræðinni, þar sem Sóley hefur valið róttæku leiðina.  Ekki vil ég þó meina að róttækni þurfi að vera vonda, en það hvernig hún birtist og sér í lagi hvaða afleiðingar róttækknin hefur í för með sér fyrir þann málstað / viðfangsefni sem hún lýtur að, hlýtur að skipta máli.  Þannig er það skoðun mín að málflutningur sumra róttækra femínista um jafnrétti kynjanna snúist stundum upp í andhverfu sína og sé til þess fallinn að vinna gegn markmiðinu um aukin stuðnings fólks við jafnrétti kynjanna.   

Eftir að hafa þvælst af síðu Sóleyjar yfir á síður sumra þeirra sem létu athugasemdir sínar þar í ljós, datt ég inn á síðuna femínistinn.  Þar var að finna grein um femínisma og jafnrétti kynjanna sem ber yfirskriftina: Vinnur femínistafélag Íslands gegn jafnrétti?  Mér þótti þessi grein um margt fróðleg, er henni í mörgu sammála og tel að baráttufólk fyrir jöfnum rétti kynjanna væri óhætt að staldra við þá grein og velta fyrir sér hvort ekki sé þar að finna sannleikskorn.  Þegar ég ætlaði að gerast alvöru bloggari og skrá athugasemd við þessa grein komst ég að því að fyrir lifandis löngu væri búið að loka fyrir allar athugasemdir við greinina sökum aldurs, enda greinin skrifuð fyrir 3 mánuðum.  Svona er að vera nýr í bransanum og ekki alveg búinn að læra á kerfið.

Ekki það að ég eigi von á því að Sóley verði af huganlegri lesningu þessar greinar mikð hægverskari eða hógværari í jafnréttisbaráttu sinni.  Enda er bæði litríkt og líflegt að eiga fólk með hressilegar skoðanir á hlutunum sem þora að láta þær í ljós.  

Ég hugleiddi reyndar að senda athugasemd inn á "björgunarsíðu" Sóleyjar en guggnað á því, þar sem ég sá fram á að verða jarðaður af einhverri skoðanaríkir valkyrjunni sem reglulega leggja leiðir sínar þangað inn.  Læt mér duga að blogga um þessi mál hér í skjóli litríkra líparítfjalla og vona að Sóley taki mig nú ekki af jólakortalistanum. 

Með jafnréttis kveðju

Árni 


Markverðast síðasta sólarhringinn

Góðan daginn bloggsíða.

Svo þú ert hérna enn þá!?  Það er gott að vita af því að það eru til svona fastar í lífinu.  Eitthvað sem er til staðar sama hvað á dynur í þessu hverfula lífi.  Ekki það að ég ætti beint von á að þú myndir hverfa strax eftir fyrstu færsluna mína, en hvað veit maður nýgræðingur í blogginu.  Það sem helst er markvert í lífi mínu síðasta sólarhringinn svona fyrir utan það að Elfa ástkær eiginkona mín fór í klippingu og litun (já það eru alltaf markverðir viðburðir þegar konur fara höfuðyfirhalningu, því þá hættir fólk að stara eins mikið á það hvað hárrótin er orðin áberandi.  Ég er náttúrulega ekki með nokkru dómbær um það hvort og hversu markverður viðburður höfuðyfirhalning er, enda langleiðina að verða sköllóttur.  Nokkuð sem gerði óþægilega vart við sig upp úr tvítugu þegar hvert hárstrá í lofa var skref í átt að heimsendi, en þegar maður fer að nálgast fertugt verður þetta bara þægilegra og þægilegra.  Hárleysið hefur til að mynda alveg losað mig við óvissuna um það hvað ég eigi að gera í næstu höfuðyfirhalningu enda ekki úr mörgu að velja.  Þannig að núorðið er þetta bara leyst með rúningarklippum heimilisins, Elfu til mis mikillar kátínu.)

En það sem væntanlega telst þó markverðast þennan síðasta sólarhring er trúlega spilakvöld menntaskólahópsins, þar sem við fjórir félagar úr MH hittumst óreglulega og grípum í spil.  Það tók litlar 4 vikur að finna tíma sem allir kæmust (allir að meikaþað í fjölskyldu-, húsnæðis- og vinnu-frama).  Þar sem að það er fyrir mörg hundruð árum búið að nema allt land á Íslandi, ýmist með eldum eða kvígum (fyrir utan landvinningaherferð þá sem íslenska ríkið rekur nú í tengslum við þjóðlendumálið) námum við félagarnir landa á eyjunni Catan og höfuðum mis mikinn árangur af.  Hið áhugaverðasta spil sem nú er komið með fjölda tilbrigða.  Það fylgir því þó óneitanlega alltaf pressa að spila við fyrrum Íslandsmeistara í Catan.

Á morgun höldum við feðgarnir (Árni, Hringur, Birgir Þór) í Dalsmynni á Snæfellsnesi þar sem við hyggjumst dvelja fram á sunnudag.  Elfa verður því miður fjarri góðu gamni þar sem samstúdentar hennar fagna nú 10 ára afskriftarafmæli á Sauðárkrók. 

Og þar með lýkur bloggfærslu minni nr. 2.

Ha det bra.

Árni

 


Frumraun í skjóli myrkurs.

Ja nú er bleik brugðið!

Hér sit ég við stjórnborðið á minni eigin bloggsíðu, en hef hingað til ekki sýnt þessum miðli nokkurn áhuga.  Hef í raun ekkert skilið í því hvað fólk er að vilja með hugleiðingar sýnar á borð fyrir heimsbyggðina.  Síðustu daga hef ég endrum og sinnum villst inn á eina og eina bloggsíðu og stend mig að því að hafa gaman af.  Nú fyrst annar hver Íslendingur virðist kominn með blogg síðu, hlýtur maður sem sannur landi að verða að vera eins, enda hjarðeðli þjóðarinnar með endemum sterkt.  Ekki það að ég hafi nokkra hugmynd um það hvað ég ætlast fyrir með þessa síðu, en það hlýtur að skýrast.  Kannski að þetta verði bara dagbókin mín sem aldrei varð, þrátt fyrir ótal tómar dagbækur sem hafa verið keyptar í gegnum tíðina, en ávalt endað, í lok árs, jafn tómar og þegar þær voru keyptar.  Allt hlýtur það að skýrast.

Trúlega er nú rétt að eitt komi skýrt fram í upphafi, ef einhver kynni að hnjóta um stafsetningar- og málfarsvillur.  Ég er kennari að mennt.  Útskrifaður með þetta ágæta heilræði frá íslenskukennara mínum í KHÍ.  "Árni minn.  Svo myndi ég ekkert vera að kenna íslenska stafsetningu eða málfræði". 

Segi þetta gott í bili og sný mér að koddanum.  Ekki alveg viss hvort ég eigi að vera: ánægður, hissa´eða óttasleginn yfir því að vera búinn að opna bloggsíðu.

Lifið heil.

Árni


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband