Seinni hluti sumarfrísins: matur og slökun

Sæl Blogga mín. Nú er seinni hluta sumarfrísins lokið og ég alkominn til byggða.

Við Hringur fórum á Djúpavog með mömmu og Stebba frænda.  Fallegur bær í faðmi austfjarðaþokunnar.  Við komumst m.a. að því að Papey er falleg, þó svo að við hefðum kannski ekki vilja feta í fótspor Gísla Þorvarssonar og eiga þar fasta búsetu.  Þá fórum við í fuglaskoðun í nágrenni Djúpavogs.  Það er til mikillar fyrirmyndar það sem Djúpavogshreppur hefur gert varðandi fuglaskoðun og aðgengileika fólks að þeirri skemmtilegu iðju.  Þannig var í boði fuglakort þar sem við merktum við þær tegundir sem við fundum og skiluðum niðurstöðunni inn í verðlaunasamkeppni sem dregið er úr í lok árs.  Meira um það hér: http://www.djupivogur.is/fuglavefur/.  Einn af dögunum heimsóttum við Hafþór sveitarstjóra og Hlíf konu hans þar sem þau haf búið heimili sitt í gömlum sveitaskóla, sem síðast hýsti lakrísverksmiðju.  Við nutum góðrar móttöku og komumst að því að lakrísilmur liggur lengi í loftinu.

Eftir dvöl á Austurlandi hélt ég norður í Skagafjörð og fann þar restina af fjölskyldu minni í góðu yfirlæti hjá tengdaforeldrum mínum á Höfða að Höfðaströnd.  Þar hófust mikil átök sem að mestu leiti samanstóðu af því að koma sér að morgunverðarborðinu og borða.  Komast síðan inn í sófa og jafna sig þangað til hádegismatur var fram borinn, koma sér þá aftur fram í eldhús og borða.  Rúlla síðan inn í stofu og bíða eftir kaffinu.  Að loknu síðdegiskaffi (og meðlæti) var það kvöldmatur og loks kvöldkaffi.  Alveg eins og góðu sveitaheimili sæmir.  Eini vandinn var bara sá að lítið var um brennslu á öllum þeim kaloríum sem mér tókst að innbyrgða.  Frá Höfða fórum við í leiðangur á Húsavík þar sem við hittum Gunnu stórvinkonu okkar og Þórdísi systur.  Einnig fórum við inn Skagafjörðinn eða "frameftir" eins og það heitir á norðurlandi, sbr. "Hann býr þarna fram frá", og heimsóttum kirkjuna að Ábæ, en það er ekki lítið ferðalag um slóða og ófærur í Austurdal, um 6 km inn af Merkigili.  Við fiskuðum í Höfðavatni þar sem ýmist komu í net 4,5 punda silungur eða 0,5 punda síld.  Við feðgarnir fórum í fjós á Mannskaðahóli og söfnuðum kjark fyrir hugsanleg framtíðarstörf sem kúasmali.

Ég sýni þér myndir síðar Blogga mín en læt þetta gott heita í bili.

Með sveita kveðju, Árni.


Læt myndir duga í þetta sinn

Sæl Blogga minn.

Dembi hér inn slatta af myndum frá sólarlandaferð fjölskyldunnar og læt það duga sem færslu dagsins.

Með myndarlegri kveðju

Árni


Kominn heim frá heitu löndunum

Elsku hjartans "druslu-tusku-ræfils-greið" mitt!  Ertu hérna enn þá Blogga mín.  Og ég ekki svo mikið sem ómakað mig að líta við hjá þér í 2 vikur.  Þetta er náttúrulega skömm.  En svo ég útskýri þetta nú fyrir þér þá brá fjölskyldan undir sig betri fætinum og hélt til heitu landanna, nánar tiltekið á eyjuna Mallorku.  Það mætti segja mér að það sé góð viku sigling að komast þangað, en við voru bara flott á því því og keyptum okkur flug, með tvöhundruð sólþyrstum Íslendingum.  Þetta var sannkölluð vísitölufjölskylduferð: ".....þús. krónur miðað við 2 fullorðna, með 2 börn í 2 vikur......".  Þetta varð hin ljúfasta ferð og fengu allir eitthvað við sitt hæfi.  Við hjónin reyndar skiptum með okkur verkum.  Elfa tók að sér að sér sólböðin og ég morguntrimmið og síðan langa síestu.  Hringur sinnti lífríkjarannsóknum á sjávarbotni samhliða ötulum lestri bóka.  Birgir Þór mætti gallvaskur til leiks á hverjum degi með sólvörn Blokk 50 og stóð í  sandkastalabyggingumog laugarbusli.  Fórum í nokkrar skoðunarferðir um eyna, enda fljót ekinn þvert og endilangt með flatarmál innan við hálfan Vatnajökul.

Jæja Blogga þetta verður bara stutt sem fyrsta færsla eftir sumarfrí.  Sýni þér myndir úr ferðinni síðar og segi þér kannski nánar frá þessu.

Gaman að sjá þig á ný.

Sólarkveðja, Árni


Ég er enn á lífi......en brjálað að gera

Sæl Blogga mín.

Jú jú ég er enn á lífi.  Þó svo að ég hafi ekki heilsað upp á þig í viku.  Það er einfaldlega búið að vera brjálað að gera.  Sumarfrí í vændum og allt á að klárast fyrir þann tíma.  Fyrst og fremst í vinnunni, en heimilið hefur heldur ekki farið varhluta af þessum feiknar dugnaði.  Á föstudaginn sendi mín ástkæra mig í sérhæfða hreingerningarvöruverslun í Ármúlanum.  Þar var hún búin að láta taka frá eitthvert forláta hreingerningarefni sem á engan sinn líkan.  Undra efni sem er svo auðvelt í notkun að þegar því er reynt yfir, stirnir á allt sem verður fyrir og brosið á þeim, sem er svo lánsamur að nota efnið, verður svo stórt að ef ekki væru til staðar eyru myndi brosið ná hringinn.  Ég var því ekki lítið spenntur þegar kom að því að prófa efnið.  Mér til mikillar vonbrigði skynjaði ég aldrei þessa gleði við notkun efnisins en árangurinn lét þó ekki standa á sér.

Birkir vinur Hrings kom í gistingu um helgina.  Gott til þess að vita að þessir drengir sem kynntust 3 ára á leikskóla skuli enn vera svona miklir mátar, þrátt fyrir ólíkt áhugasvið í dag.  Birgi Þór fannst eignarétti sínum á Hring þó ógnað með komu Birkis en það lagaðist fljótt þegar hann fékk að vera með. 

Sjálfur hef ég nú afrekað það að fara út að hlaupa 7 sinnum á síðustu 10 dögum.  Ég veit reyndar ekki hvort ég ætti að túlka það sem létti eða vonbrigði en það sem ég hélt að væri upphafið af astma þegar ég byrjaði þetta hlaupaátak (ég var svo andstuttur) hefur lagast til muna en, 5 kg + á vigtinni er staðreynd.  Trúlega hafa orsakirnar verið offita en ekki astmi.  En nú er áttakið hafið ég byrjaður að hlaupa, formið á uppleið og ég stefni á ..."í kjólinn fyrir jólin".

Með skínandi kveðju

Árni


Úr máli í myndir

Hæ Blogga.

Við Birgir áttum gæðastund eftir leikskólann.  Fengum lánaða "dóra-dóra" malarskóflu og grófum tilraunaholur bakvið hús í tengslum við fyrirhugaðar pallaframkvæmdir í sumar.  Ekki það að þetta sé að bresta á, enda á undirbúningur málsins eftir að fara sína lögformlegu leið í kerfinu: hönnun (ég, Elfa og Frissi), deiliskipulag (ég legg til samþykktar hjá Elfu), umhverfismat (ég og granninn skiptumst á nokkrum orðum) og ef ekki verður um að ræða kærur hefjast framkvæmdir síðla sumars.  Nánar um það síðar.  Varðandi gerð þessara tilraunahola náðist ekki full samhæfing okkar feðga fyrr en á síðustu holu þegar Birgir gafst upp á að reyna að moka jafn óðum ofan í holuna sem ég var að moka upp úr.

Þegar við vorum búnir að fá nóg af greftrinum fórum við út að borða með pabba (Birgi afa) og meirihluta systkina minna, þar sem að gamli var í bænum (heyrir til tíðinda).  Þegar þjónustustúlkan tók á móti okkur og áttaði sig á fjöldanum stundi greið "....uhhh já.... Ok.... en...öööhh... ég er sko bara ein".  Hver á líka von á slíkri holskeflu þegar maður óskar eftir borði fyrir sig og börnin sín.  NB og ekki einu sinni full mannað.  Svona eftir á að hyggja var þetta náttúrulega snilldar svar.  Um að gera að tilkynna gestunum að þjónustufólkið sé því miður fáliðað í kvöld, í stað þess að ræsa út aukavakt.  Þetta var fínn matur en ég man náttúrulega ekkert hvað staðurinn hét.  Var þarna í gamla Geysishúsinu á móti Kaffi Reykjavík.  Þegar komið að því að spá í eftirrétt kom samstaða okkar systkinanna skírt í ljós þegar það var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að fara í ísbúðina á Hagamel (og kaupa þann gamla).  Reyndar sat Pétur hjá, en það er bara af því að hann er á bömmer yfir hagfræði-bumbunni sem síðasta sumar var strekktur six-pack.

Jæja Blogga mín nú ætla ég að prófa að taka næsta skrefið á blogg-brautinni og setja inn nokkrar myndir í albúmið hjá þér.  Talandi um systkini mín er ekki úr vegi að byrja á því að koma þeim hér fyrir sjónir umheimsins, enda fáir séð þennan annars einkar hlédræga hóp.  Komst reyndar að því að ég átti ekki alveg jafn góðar myndir af þeim öllum.  Ef einhverju þeirra finnst friðhelgi einkalífsins ógnað, verða þau bara að senda mér aðra betri mynd eða fara í meiðyrðamál.

Með systkinakveðju; Árni


Aðgerðalítið á vesturvígstöðvum

Sæl Blogga.

Ekki seigi ég nú að það  sé mikið í fréttum og gengur lífið sinn vana gang.  Mánudagurinn var einkar hefðbundinn.  Vinna - sofa - éta.  Þriðjudagurinn var það í sjálfu sér líka nema hvað í ljósi þess að sjávarútvegsráðherra ákvað að auka humar kvótann (væntanlega til að bæta upp fyrir þorskinn) ákváðum við hjónin að sýna stuðning við þessa ákvörðun Einars og drógum fram humar.  Já svona getur maður leyft fiskveiðistjórnunarkerfinu að hafa skemmtileg áhrif á matseðil heimilisins.  Mamma og Arnþór sýndu einnig stuðning sinn við fiskveiðistjórnunarkerfið í verki og hjálpuðu okkur við að torga humrinum.  Birgir var reyndar hrifnari af upphituðum grjónagraut en humarhölunum.  Hann skilur greinilega ekki mikilvægi þess að heimilin í landinu styðji við fiskveiðistjórnunina í verki.  Nú vona ég bara að þeir fari ekki að tilkynna um auknar aflaheimildir á loðnu.

Eftir vinnu, í dag, fórum við feðgarnir í heimsókn til Steinunnar Ernu og Co.  Þar sannaðist að hjarta Birgis er lítt stærra en hjarta föður hans á svipuðum aldri.  Steinunn Erna hafði fengið forláta andlistförðunar sett, sem hæfir 2 ára stúlkum, og mátti til með að sýna frænda sínum herlegheitin.  Ekki lítið flott sett, sem var þannig búið að þegar þrýst var á hnapp lyftist lokið, spegill birtist og skúffa með öllu förðunardótinu dróst út.  Birgi fannst þetta stórfenglegt og sannprófaði ítrekað virkni opnunar hnappsins.  Þá var komið að því að Steinunn sýndi Birgi til hvers ætti nú í raun og veru að nota þetta fínerí.  Hún dreif fram rauðan varalit og renndi honum fimlega um varirnar.  Árangur kom fljótt í ljós þar sem neðrihluti andlits hennar varð brátt orðinn fagur rauður.  Það skipti engum togum að Birgir varð skelfingu lostinn.  Hann greip báðum höndum um munninn á sér og flúði í fang föður síns.  Það var ekki fyrr en búið var að þrífa Steinunni í tvígang í framan (hún var svo sem ekki á því að gefast upp við að gera sig fína þó svo að frændi hennar kynni ekki að meta fallega málaðar stúlkur) að Birgir fékkst með semingi að losa hendurnar frá munninum og hætti sér í leik.  Kvöldið var svo klikkt út með framandi kvöldverði á norður-amerískum veitingastað í Hafnarfirði.  Já Blogga maður var bara grand og bauð fjölskyldunni út á borða á KFC og fékk prik fyrir.  Nema hvað.

Með kvótakveðju.

Árni


Helgin tekin með stæl

Sæl Blogga.

Já það er alveg rétt hjá þér.  Ég er svolítið ryðgaður eftir helgina og skyldi engan undra.  Laugardagurinn byrjaði rólega, við Biggi fórum í Sorpu (sem er alltaf jafn spennandi) og heimsóttum síðan Stefán Steinar og Snjólaugu.  Um kvöldið var svo skundað í rúmlega þrítugs afmælið hennar Bettýar frænku.  Ég held að Séð og heyrt sé eitthvað farið að dala í "rannsóknar" blaðamennsku sinni, þar sem þeir voru hvergi nærri, en gestalistinn samstóð af helsta "selebi" samfélagsins.  Fyrir utan okkur hjónin náttúrulega voru þarna forsetahjónin (Óli og Dóra), feðgarnir Ómar Ragnarsson og Þorfinnur, Leoncie, Bubbi, Karl Bretaprins, Elvis, Frank Sintra, Paris Hilton, jólasveinnin, Napolion Bonabarte, þrjár Marilin Monro svo einhverjir séu nú nefndir.  En þarna voru líka tvær af glötuðu dætrum þessa lands og ljóst að barátta Soffíu Hansen hefur loks borið árangur því þarna voru þær Dagbjört og Rúna einnig mættar með fremur íslömsku yfirbragði.  Já Blogga.  Þú hefðir þurft að vera þarna til að trúa þessu.  Þetta var hið ánægjulegasta teiti en mér var létt brugðið þegar ég drifinn upp á svið og ásamt 5 öðrum látinn setja upp leikritið Rauðhetta og úlfurinn í nýrri og kynhverfri útsetningu óþekk(t)s höfundar.  Eftir leiksigurinn var tjúttið tekið með stæl, þó svo að gömlu taktarnir hafi eitthvað verið farnir að ryðga hjá mér.  Þar sem Elfa konan mín er nú með skynsamari konum þjóðarinnar, hafði hún vit á því að toppa á réttum tíma og þegar klukkan var gengin í eitt hélt hún heim.  Álag leigubílastöðvanna var þá augljóslega ekki hafið.  Góðum klukkutíma síðar sá ég að minn tími var kominn, þreif upp GSM símann og byrjaði að reyna að ná sambandi við allar helstu leigubílastöðvar borgarinnar, en án þessa að mér væri svo mikið sem svarað.  Ég sá að þetta dygði ekki, dreif mig í svarta hettujakkann og arkaða af stað á leiðs heim.  Stefnan var tekinn eftir beinni línu frá Mjódd og suður í Áslandshverfi í Hafnarfirði.  Ferðin sóttist mér vel enda fáir á ferli til að amast við því að ég stytti mér leiðir í gegnum stöku garða í Selja- og Salahverfi.  Reglulega reyndi ég við leigubílastöðvarnar en engin svör.  Eftir að ég var kominn í gegnum Kópavogsbæ lá leiðin um lúpínuakra uppsveita Garðabæjar og þá fyrst fór ég að efast um að það hafi verið viturlegt að taka beina göngustefnu, þar sem það hafði rignt þó nokkuð og lúpínuflæmið sem hafði náð hné hæð var gegnsósa af vætu.  Það var farið að gutla all verulega í skónum mínum þegar ég kom að Vífilsstaðarvatni.  Þá ákvað ég að nú myndi ég fylgja veginum og segja skilið við heiðar og lúpínubreiður.  Það var dálítið kómískt að strunsa einn um nótt vestur með Heiðmörkinni eftir vegi sem í daglegu tali er nefndur flóttamannaleið.  Þegar ég var hálfnaður frá Vífilsstöðum til Hafnarfjarðar gerðist hið ótrúlega.  Það vor ljós á veginum.  Hið enn ótrúlega átti síðan eftir að bætast við þegar bílinn stoppaði þar sem ég gerði, að því er mér fannst, bjartsýna tilraun til að húkka far, orðin fremur votur og vafa lítið ekki árennilegur í svörtu hettuúlpunni.  Þetta reyndist vera ung stúlka sem hafði verið ræst út að sækja fólk í mannfagnað inn undir Kaldársel.  Ég skil ekki enn hvernig henni datt í hug að stoppa, en hún á þakkir skilið.

Þannig að sunnudags morguninn var tekinn með stakri ró og skrönglaðist ég ekki á fætur fyrr en langt gengin í 12.  Þetta var bara orðið eins og í denn, nema hvað ég var greinilega ekki í alveg sömu þjálfuninni og þá.  Seinni partinn var svo barna afmæli hjá Krissu systur þar sem Alex fagnaði 5 ára afmælinu.  Mér létti að sjá að systur mínar voru ekkert mikið ferskari en ég þrátt fyrir að þær hefðu að mestu náð framan úr sér andlitsmálningu gærkvöldsins og það hefur nú ekki verið lítið verk fyrir þær flestar.

Deginum lauk síðan með grillveislu aldarinnar þar sem Tóta mágkona og Hólmgeir yfirgrillari fóru mikinn svo ekki sé meira sagt.  Ræst var með grilluðum stór-humri frá Grétar, því næst var það lax í Teriaki með salthnetum, þá grillað hrefnukjöt, síðan marineraður skötuselur og loks sítrónukryddaðar kjúklingabringur.  Með herlegheitunum var svo alskyns gúmmelaði: 6 mismunandi sósur, salöt af ýmsum toga, bakaðar kartöflur, gular baunir og .............  Í eftirrétt voru svo dýrindis tertur og kaffi.  Eins og sönnum Skagfirskum húsmæðrum sæmir var nóg til af öllu og trúi ég að fjölskyldan í Torfufellinu eigi afganga vel fram á sumar.  Elfa mátti styðja mig upp tröppurnar heima þar sem ég lagðist afvelta af ofáti upp í rúm og reis ekki upp fyrr en í morgun og skýrir það af hverju þú, Blogga mín, hefur ekki heyrt í mér síðan á laugardag.  Það var sem sagt tekið hraustlega á því um helgina.

Með átakskveðju.

Árni


Það hafa ekki allir efni á þægindum

Hæ Blogga.

Föstudags morgun var tekinn snemma.  Stormaði út á flugvöll þar sem ég átti bókað sæti 2A á Saga-Class farrými norður á Akureyri.  Já það eru fleiri en jakkafatastrákarnir á einkaþotunum sem ferðast með stæl.  Þótt það sé náttúrulega miklu miklu dýrara að ferðast á Saga Class þá höfum við Lýður Oddsson farið yfir málið og niðurtaða okkar er sú að þetta marg borgi sig fyrir menn eins og okkur, sem verðum að nota tímann vel og höfum efni á þægindum.  Til dæmis er alltaf byrjað með veitingaþjónustuna fremst í flugvélinni.  Þannig fæ ég kaffið bæði heitara og get notið þess í lengri tíma saman borið við vesalings almúgann sem þarf að húka í 15. og öftustu sæta röð.  Nú stóri sparnaðurinn eða eiginleg gróðinn liggur svo í því að það er hleypt úr flugvélinni fremst.  Þannig er ég kominn út úr flugvélinni jafnvel 2 og 1/2 mínútu á undan þeim sem ekki höfðu efni á Saga Class miðanum.  Tilgangur ferðar minnar norður á Akureyrir var nú svona eins og við í bransanum orðum það Work and pleasure.  Það er nefnilega þannig að við uppteknu mennirnir höfum eiginlega ekki tíma til að vera til af því að það er svo mikið að gera í vinnunni, þá er eiginlega eini tíminn sem okkur gefst tækifæri á að vera til og splæsa á okkur munaði og þæginum er með því að hnýta því við vinnuferðir.  Þannig að eftir fundi dagsins átti ég rúmar 40 mínútur fram að fluginu til Reykjavíkur og ákvað að taka þetta bara með stæl.  Fór og fékk mér Brynju ís og keyrði upp gamla Vaðlaheiðarveginn og naut útsýnisins yfir Eyjafjörð.  Elfa greyið, hún náttúrulega var bara heima í Reykjavík og fékk engan Brynju ís.  En það var heldur ekki hún sem vann í Lottóinu!

Um kvöldið áttum við þessa líka ljómandi skemmtilegu kvöldstund með vinum okkar þeim Begga og Bellu sem við höfðum ekki hitt allt of lengi.  Komumst reyndar að því að þau höfðu aldrei heimsótt okkur á Nönnustíginn þar sem við bjuggum síðast.  Reyndar segir það trúlega meira um tíða flutninga okkar hjóna, en tíðnir heimsókna vina okkar.  Því þeir voru margir sem aldrei náðu heimsókn á Nönnustíginn.  Það er náttúruleg bilun að flytja tvisvar sinnum á 10 mánuðum.  Jæja í kvöldmatinn voru gæsabringur frá skytteríi haustsins og olli það Elfu vissum áhyggjum.  Enda var þetta gott sem frumraun húsbóndans í að matreiða gæs.  Allt gekk þetta nú stórslysalaust, þó svo að gæsin hafi þurft að fara í tvígang aftur inn í ofninn vegna of lítillar steikingar.  Sósan var góð og allir báru sig vel.

 

Með Classa kveðju

Árni


Sveitin og stórborgin

Sæl frú Blogga.

Jújú þetta var nokkuð hefðbundinn dagur, nema ef vera kynni sú ótrúlega staðreynd að ég fór annan daginn í röð út að hlaupa með honum Rögnvaldi.  Ég prísa mínu sæla að hafa verið öllu brattari en í gær.

Trúlega verður þó helsta afrek dagsins að teljast það þegar ég safnaði í mig kjark og hikandi skrifaði inn athugasemd á heimasíðuna hennar Sóleyjar frænku.  Ekki það að ég óttist hana frænku mína, heldur öll ókunnugu ljónin sem keppast við að skrá þar inn athugasemdir og skiptast svo á að rífa hvert annað í sig.  Þarna eru stóru bloggararnir á ferð.  Við skulum líka átta okkur á því, Blogga mín, að þetta er engin miðlungssíða.  Hér erum viða að tala um síðu sem er í 8. sæti yfir vinsælustu bloggsíðurnar á Mogga blogginu með tæpar 9000 heimsóknir á viku.  Jú reyndar er síðan hennar ekki sú vinsælasta, en má ég þá biðja um róttækar femínískar skoðanir frænku minnar en hugaróra stúlkunnar sem heldur úti vinsælustu síðunni, og það með tæpar 25.000 heimsóknir á viku.  Ég kannaði málið Blogga mín og við náum ekki einu sinni inn á topp-400.  Þetta er svona eins og munurinn á hraðri og fjölmennri stórborg og rólegum sveitabæ.  En Blogga mín við höfum það nú bara notalegt hérna í sveitinni.  Kíkjum svo bara í skoðunarferðir í stórborgirnar en höldum okkur ella heima í sveitinni.  Eða eins og Svíinn myndi orða það: Borta bra, menn hemma best.

Með sveita kveðju.

Árni


Að velja sér hlaup(ara) við hæfi

Hæ Blogga.

Nú þetta ætlar að verða nokkuð hefðbundinn dagur; vinna, éta, sofa.  Reyndar urðu ósigrar gærdagsins að sigrum dagsins í dag þar sem ég fór út í kroppatamningu þegar ég skokkaði umhverfis Öskjuhlíðina.  Ég komst reyndar að því að hlaupin hjá mér ganga bæði jafnt (ég hleyp orðið mjög sjaldan) og (ég verði sífellt) þéttari.  Til þess að standa nú ekki einn í þessari orrustu fékk ég til liðs við mig Rögnvald Ólafsson félaga minn hjá Ríkislögreglustjóranum.  Allt fór þetta nú vel af stað.  Hægur vindur, sólskin og ég mættur í hlaupadressinu.  Við skokkuðum létt og skiptumst á skoðunum.  Af flugvallarveginum var haldið upp með gamla hitaveitustokknum, en þar tók gamanið að kárna.  Léttu sporin tóku að þyngjast og útöndun minn fór að hljóma eins og blásturskennt hátíðnihljóð.  Sannfærður um að láta þetta ekki slá mig út af laginu hélt ég ótrauður áfram og bætti við mig ef eitthvað var.  En brekkan var löng og að lokum var ég farin að hljóma eins og mæðuveik rolla.  Síðustu metrar brekkunnar voru hlaupnir af miklum skilningi og samkennd Rögnvaldar.  Nú fór brekkan að halla niður í móti og þar með vænkaðist hagur minn til muna, þar sem þyngdarlögmálið fór að vinna skemmtilega með mér.  Á restinni af skokkinu komst ég að því, mér til mikillar skelfingar, að Rögnvaldur er síðustu mánuði búinn að vera í stífri bardagaþjálfun hjá einhverju "boot camp" fyrirtæki úti í bæ og er þol hans orðið með þeim hætti að hann gefur Jack Bauer og Indiana Jones ekkert eftir.  Já maður kann nú að velja sér hlaupafélagana.  Reyndar má Rögnvaldur eiga það að umburðalyndi hans í þessu hlaupi var mikið og hann þakkir skilið.

Þar sem ég þykist ætla aftur út að hlaupa með Rögnvaldi á morgun verður þetta ekki lengra í bili Blogga mín, þar sem ég verð að fara að sofa og safna kröftum fyrir átökin.

Með andnauðskveðju.

Árni


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband