Að velja sér hlaup(ara) við hæfi

Hæ Blogga.

Nú þetta ætlar að verða nokkuð hefðbundinn dagur; vinna, éta, sofa.  Reyndar urðu ósigrar gærdagsins að sigrum dagsins í dag þar sem ég fór út í kroppatamningu þegar ég skokkaði umhverfis Öskjuhlíðina.  Ég komst reyndar að því að hlaupin hjá mér ganga bæði jafnt (ég hleyp orðið mjög sjaldan) og (ég verði sífellt) þéttari.  Til þess að standa nú ekki einn í þessari orrustu fékk ég til liðs við mig Rögnvald Ólafsson félaga minn hjá Ríkislögreglustjóranum.  Allt fór þetta nú vel af stað.  Hægur vindur, sólskin og ég mættur í hlaupadressinu.  Við skokkuðum létt og skiptumst á skoðunum.  Af flugvallarveginum var haldið upp með gamla hitaveitustokknum, en þar tók gamanið að kárna.  Léttu sporin tóku að þyngjast og útöndun minn fór að hljóma eins og blásturskennt hátíðnihljóð.  Sannfærður um að láta þetta ekki slá mig út af laginu hélt ég ótrauður áfram og bætti við mig ef eitthvað var.  En brekkan var löng og að lokum var ég farin að hljóma eins og mæðuveik rolla.  Síðustu metrar brekkunnar voru hlaupnir af miklum skilningi og samkennd Rögnvaldar.  Nú fór brekkan að halla niður í móti og þar með vænkaðist hagur minn til muna, þar sem þyngdarlögmálið fór að vinna skemmtilega með mér.  Á restinni af skokkinu komst ég að því, mér til mikillar skelfingar, að Rögnvaldur er síðustu mánuði búinn að vera í stífri bardagaþjálfun hjá einhverju "boot camp" fyrirtæki úti í bæ og er þol hans orðið með þeim hætti að hann gefur Jack Bauer og Indiana Jones ekkert eftir.  Já maður kann nú að velja sér hlaupafélagana.  Reyndar má Rögnvaldur eiga það að umburðalyndi hans í þessu hlaupi var mikið og hann þakkir skilið.

Þar sem ég þykist ætla aftur út að hlaupa með Rögnvaldi á morgun verður þetta ekki lengra í bili Blogga mín, þar sem ég verð að fara að sofa og safna kröftum fyrir átökin.

Með andnauðskveðju.

Árni


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband