Það hafa ekki allir efni á þægindum

Hæ Blogga.

Föstudags morgun var tekinn snemma.  Stormaði út á flugvöll þar sem ég átti bókað sæti 2A á Saga-Class farrými norður á Akureyri.  Já það eru fleiri en jakkafatastrákarnir á einkaþotunum sem ferðast með stæl.  Þótt það sé náttúrulega miklu miklu dýrara að ferðast á Saga Class þá höfum við Lýður Oddsson farið yfir málið og niðurtaða okkar er sú að þetta marg borgi sig fyrir menn eins og okkur, sem verðum að nota tímann vel og höfum efni á þægindum.  Til dæmis er alltaf byrjað með veitingaþjónustuna fremst í flugvélinni.  Þannig fæ ég kaffið bæði heitara og get notið þess í lengri tíma saman borið við vesalings almúgann sem þarf að húka í 15. og öftustu sæta röð.  Nú stóri sparnaðurinn eða eiginleg gróðinn liggur svo í því að það er hleypt úr flugvélinni fremst.  Þannig er ég kominn út úr flugvélinni jafnvel 2 og 1/2 mínútu á undan þeim sem ekki höfðu efni á Saga Class miðanum.  Tilgangur ferðar minnar norður á Akureyrir var nú svona eins og við í bransanum orðum það Work and pleasure.  Það er nefnilega þannig að við uppteknu mennirnir höfum eiginlega ekki tíma til að vera til af því að það er svo mikið að gera í vinnunni, þá er eiginlega eini tíminn sem okkur gefst tækifæri á að vera til og splæsa á okkur munaði og þæginum er með því að hnýta því við vinnuferðir.  Þannig að eftir fundi dagsins átti ég rúmar 40 mínútur fram að fluginu til Reykjavíkur og ákvað að taka þetta bara með stæl.  Fór og fékk mér Brynju ís og keyrði upp gamla Vaðlaheiðarveginn og naut útsýnisins yfir Eyjafjörð.  Elfa greyið, hún náttúrulega var bara heima í Reykjavík og fékk engan Brynju ís.  En það var heldur ekki hún sem vann í Lottóinu!

Um kvöldið áttum við þessa líka ljómandi skemmtilegu kvöldstund með vinum okkar þeim Begga og Bellu sem við höfðum ekki hitt allt of lengi.  Komumst reyndar að því að þau höfðu aldrei heimsótt okkur á Nönnustíginn þar sem við bjuggum síðast.  Reyndar segir það trúlega meira um tíða flutninga okkar hjóna, en tíðnir heimsókna vina okkar.  Því þeir voru margir sem aldrei náðu heimsókn á Nönnustíginn.  Það er náttúruleg bilun að flytja tvisvar sinnum á 10 mánuðum.  Jæja í kvöldmatinn voru gæsabringur frá skytteríi haustsins og olli það Elfu vissum áhyggjum.  Enda var þetta gott sem frumraun húsbóndans í að matreiða gæs.  Allt gekk þetta nú stórslysalaust, þó svo að gæsin hafi þurft að fara í tvígang aftur inn í ofninn vegna of lítillar steikingar.  Sósan var góð og allir báru sig vel.

 

Með Classa kveðju

Árni


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ja, hérna, hér, amen, hallelúja og allir mínir englar!

Til hamingju með að storka sjálfum þér í blogg vitleysunni, eins og þú kallar það. Er sjálf í þínu liði og læt mér nægja að lesa um annarra manna líf og tilveru. En líst vel á þessa frumraun og finnst þú nú bara nokkuð áhugaverður og skemmtilegur bloggari. Set þig inn í "feivorit".

 Bíð spennt eftir framhaldi á hlaupum ykkar Rögga og veit að hjartahlýrri hlaupara færðu ekki með þér í þjálfunina. Kannski að ónefndur gæti skutlast með ykkur, þ.e. ef hann stoppar einhvern tímann hér á landi?..... segi bara svona....

kv GP

Guðbjörg Páls (IP-tala skráð) 2.6.2007 kl. 23:25

2 Smámynd: Álfhóll

Sæll Árni minn.

Velkominn í hóp okkar sem erum að leika okkur að þessari nýju tegund tjáskipta. Bæði spennandi og ógnvekjandi.

Bestu kveðjur

Gunna

Álfhóll, 4.6.2007 kl. 11:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband