Seinni hluti sumarfrísins: matur og slökun

Sæl Blogga mín. Nú er seinni hluta sumarfrísins lokið og ég alkominn til byggða.

Við Hringur fórum á Djúpavog með mömmu og Stebba frænda.  Fallegur bær í faðmi austfjarðaþokunnar.  Við komumst m.a. að því að Papey er falleg, þó svo að við hefðum kannski ekki vilja feta í fótspor Gísla Þorvarssonar og eiga þar fasta búsetu.  Þá fórum við í fuglaskoðun í nágrenni Djúpavogs.  Það er til mikillar fyrirmyndar það sem Djúpavogshreppur hefur gert varðandi fuglaskoðun og aðgengileika fólks að þeirri skemmtilegu iðju.  Þannig var í boði fuglakort þar sem við merktum við þær tegundir sem við fundum og skiluðum niðurstöðunni inn í verðlaunasamkeppni sem dregið er úr í lok árs.  Meira um það hér: http://www.djupivogur.is/fuglavefur/.  Einn af dögunum heimsóttum við Hafþór sveitarstjóra og Hlíf konu hans þar sem þau haf búið heimili sitt í gömlum sveitaskóla, sem síðast hýsti lakrísverksmiðju.  Við nutum góðrar móttöku og komumst að því að lakrísilmur liggur lengi í loftinu.

Eftir dvöl á Austurlandi hélt ég norður í Skagafjörð og fann þar restina af fjölskyldu minni í góðu yfirlæti hjá tengdaforeldrum mínum á Höfða að Höfðaströnd.  Þar hófust mikil átök sem að mestu leiti samanstóðu af því að koma sér að morgunverðarborðinu og borða.  Komast síðan inn í sófa og jafna sig þangað til hádegismatur var fram borinn, koma sér þá aftur fram í eldhús og borða.  Rúlla síðan inn í stofu og bíða eftir kaffinu.  Að loknu síðdegiskaffi (og meðlæti) var það kvöldmatur og loks kvöldkaffi.  Alveg eins og góðu sveitaheimili sæmir.  Eini vandinn var bara sá að lítið var um brennslu á öllum þeim kaloríum sem mér tókst að innbyrgða.  Frá Höfða fórum við í leiðangur á Húsavík þar sem við hittum Gunnu stórvinkonu okkar og Þórdísi systur.  Einnig fórum við inn Skagafjörðinn eða "frameftir" eins og það heitir á norðurlandi, sbr. "Hann býr þarna fram frá", og heimsóttum kirkjuna að Ábæ, en það er ekki lítið ferðalag um slóða og ófærur í Austurdal, um 6 km inn af Merkigili.  Við fiskuðum í Höfðavatni þar sem ýmist komu í net 4,5 punda silungur eða 0,5 punda síld.  Við feðgarnir fórum í fjós á Mannskaðahóli og söfnuðum kjark fyrir hugsanleg framtíðarstörf sem kúasmali.

Ég sýni þér myndir síðar Blogga mín en læt þetta gott heita í bili.

Með sveita kveðju, Árni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Greinilega ljúft frí hjá ykkur feðgum. Kannast við framfrá og frameftir, sem aðkomufólk á Siglufirði hélt að væri fram fjörðinn eða út. En frameftir var að fara inn í fjörðinn og framfrá var að fara hinum megin í fjörðinn eða beint á móti bænum. Bíddu karlinn minn fórstu í alvöru ekki á Siglufjörð  

Herdís Sigurjónsdóttir, 5.8.2007 kl. 10:13

2 Smámynd: Álfhóll

Árni minn þú sverð þig í ættina. Hefurðu bloggað meira um annað en mat? 

Skil það svosem...allt of vel......

Gunna

Álfhóll, 13.8.2007 kl. 15:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband