Garðyrkja, siglingar og kappreiðar

Sæl gamla mín.

Nú jæja.  Þetta er búið að vera nokkuð hefðbundið eftir að vinnan heltist yfir að loknu sumarfríi.  Vinna sofa éta.  Verslunarmannahelgin var tekin með ró.  Á mánudeginum fórum við hjónin með bræðurna í kirkjugarðinn að dytta að leiði Árna (langafa).  Birgir var alveg með á því hver hvíldi þarna enda keyrum við fram hjá garðinum til og frá heimili okkar.  Þetta er langi afi.  Eftir minniháttar snyrtingar og vökvun, sem Birgir sýndi mikinn áhuga og tók virkan þátt í, var tölt heim á leið.  Ekki veit ég hvað konan hugsaði sem við mættum á göngustígnum þegar Birgir sagði í óspurðum að við hefðum verið dugleg að vökva langafa.  Eftir garðyrkjustörf og síðdegiskaffi hélt stórfjölskyldan í siglingu á skipinu mínu.  Já Blogga mín maður er náttúrulega útgerðamaður, svona í hjáverkum.  Reyndar er þetta ekki alveg skip.  Meira svona bátur; sko ekkert mjög stór bátur en samt með hörðum botni þó hliðarnar séu í formi loftfylltrar slöngu.  Svei mér þá ef Birgir Þór hefur ekki erft bæði varkárni móður sinnar og föður.  Honum stökk ekki bros og hafði engan áhuga á að stýra.  Hringur aftur á móti sat í stafni og fagnaði hverri öldunni sem hnikað gat bátnum.  Eftir vænan hring um Hafnarfjarðarhöfn fóru Birgir og Elfa í land en við Hringur fullnýttum öll 70 hestöfl bátsins á leið okkar út fyrir Álftanes og inn í Straumsvík.  Við skemmtum okkur ljómandi vel enda orðið langt síðan við fengum okkur salibunu síðast.  Miðað við það sem fyrir augu bar á leiðinni, lítur ekki vel út með svartfuglsveiðar í haust.

Síðasta vika var nokkuð hefðbundin.  Birgir fór á leikskólann, sem var honum fannst als ekki gaman.  Reyndar virtust flest börnin sammála um að það væri best að vera áfram heima eða hafa mömmu og pappa með í leikskólanum.  Hringur er kominn, þriðja árið í röð, á badminton námskeið hjá TBR og kann hann því mjög vel, eða eins og hann orðar það "þetta er íþróttin mín".  Ja ekki er hægt að segja að hann hafi farið á mis við fótboltaáhuga föður síns.

Um síðustu helgi fórum við Elfa með vinkonum hennar úr Hússtjórnarskólanum hina árlegu "útilegu", þar sem þó aldrei er legið úti, en þeim mun betur gert við sig í mat og drykk.  Að þessu sinni dvöldum við á jörð landnámsmannsins Ingimundar Gamla að Hofi í Vatnsdal.  Reyndar er Ingimundur hættur búskap og Jón nokkur Gíslason tekinn við jörðinni og rekur þar ferðamanna og hestabú ásamat Eline Schrijver eiginkonu sinni.  Meira um það hér.  Þetta var hin ljúfast dvöl í góðum félagsskap.  Guðjón fyrrum nágranni Jóns bónda var bústjóri á meðan við dvöldumst þarna.  Við spurðum Guðjón hvort ekki væru möguleiki að komast á hestbak.  Jú, það var auðsótt, enda hestaræktun verið stunduð á bænum til fjölda ára.  Enn þeir væru allir viljugir og bara fyrir vana hestamenn, eða eins og Guðjón lýsti eiginleikum góðs reiðhests: þú átt að geta sett hann í drive og svo bara rennur hann áfram eins og góður bíll.  Flestir í hópnum unnu úr þessum upplýsingum af skynsemi, en við vorum þrír sem kepptumst við að sannfæra hvorn annan að við værum nú bara þó nokkuð vanir, þrátt fyrir að hafa aldrei stundað hestamennsku umfram það að fara á bak í sveitinni og svo stöku hestaleigu ferð.  Ekki var til baka snúið og söðlaðir 5 spengilegir hestar.  Öllu hærri og grennri en þeir sem maður á að venjast á hestaleigunum.  Guðjón og sonur hans hjálpuðu okkur að stilla hnakka, beisli og hjálma.  Við fengum stutta leiðsögn sem fyrst og fremst snérist um það að halda þétt í beisli og hemja hesta.  Það er eins og mig minnti að áherslur samskonar leiðsögu á hestaleigum væri með eitthvað öðrum áherslum.  Svo lögðum við í hann.  Við vorum rétt komnir af stað þegar áherslur leiðsagnarinnar tóku að skírast.  Það mátti ekki gefa minnsta slaka á taumnum því þá var eins og drive-ið yrði over-drive.  Nú gilti að vera sterkur í höndunum.  Allt gekk þetta eins og í sögu þar sem við geystumst upp með bökkum Vatnsdalsár og jóreykurinn þyrlaðist út frá slöð okkar.  Mér leið eins og ég væri staddur í einhverri Íslendingasögu þar sem næstu setningar væri eitthvað á þá leið: "Riðu þar fimm vörpulegir menn og fóru mikinn.  Áttu þeir sér fáa jafningja á hestbaki" .  Þegar ég, hesturinn og náttúran vorum um það bil að verða eitt kom að því að við þurftum að ríða yfir ánna en handan við ánna opnuðust stór nýslegin tún.  Hestarnir virtust mjög ákveðnir þar sem þeir ösluðu yfir ánna, með þeim afleiðingum að við blotnuðum upp undir hné.  Og svo gerðist það.  Þegar hestarnir komu upp á túnið var eins og þeim héldu engin bönd og nú hófust jafnvægislistir upp á líf og dauða (svona eins og það leit út fyrir mér á þeirri stundu).  Hesturinn rauk beint af augum og það var eins hann vissi ekki af mér.  Alla vega var honum slétt sama um tilburði mína við að ná stjórn á ferðinni.  Það var ekki fyrr en handan við túnið, melinn sem tók þar við og þúfurnar þar fyrir handan að mér tókst loks að stöðva hestinn.  Ég veit svei mér ekki hvort hjartað sló hraðar; hestsins eða mitt.  Þegar kom að næsta túni fann ég mér gott grip í hnakkbótinni og hélt þar dauða haldi þar til umhverfið virtist vinna með mér í því að ég myndi ná að hægja á för hestsins.  Allt hafðist þetta nú að lokum.  Það var ekki laust við að við værum nokkuð sperrtir þegar við komum til baka að hitta hópinn.  Við voru ósparir á frásgnirnar þetta kvöldið.  Það er sem sagt munur á hesti og hest.

Með knapa kveðju, Árni

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ Árni Frændi!

Ég mæli með boltanum í staðinn fyrir þessar áhættuíþróttir sem þú ert að fást við. Ég er líka viss um að Hringur væri góður í boltanum, en börn læra víst það sem fyrir þeim er haft... 

Í okkar fjölskyldu fara börnin bara beint í boltann. Íþróttin hefur reynst okkur systrum vel og hefur vonandi sömu áhrif á afkomendur okkar.

Með kveðju,

Kristín  

Kristín Tómasdóttir (IP-tala skráð) 14.8.2007 kl. 23:17

2 identicon

Bíddu, bíddu. Hvað með tilþrifamiklar heimferðir úr réttum og kappreiðum? Berbakt og allt. Er þetta misminni eða fer mönnum aftur með aldri og kílóum???

halla í sveitinni (IP-tala skráð) 15.8.2007 kl. 22:52

3 Smámynd: Árni Birgisson

Kristín:

Við skulum bara framkvæma stutta stúdíu á slysatíðni í fótbolta annars vegar og því sem þú nefnir áhættuíþróttir hinsvegar og sjá hvar hættan liggur.  Þú verður ekki lengi að selja takkaskóna.  Mér gengur reyndar eitt hvað illa að rifja upp þessi fótboltaafrek Tommys... hummmm

Halla:

Ætli munurinn hafi ekki legið í því að réttar reiðtúrinn góði þar sem hnakkurinn reyndist óþarfur, var að loknum góðum kveðskap (Lings við bing á grænni grund....) og enn betra kveðskaps vatni.  En ég er sannfærður um að frama mínum á hestabrautinni er ekki lokið.  Ég er nokkuð viss um að Iðunn og Dóri falast brátt eftir aðstoð minni við tamningar.  Geworden, sein bleiben.

bkv.Árni

Árni Birgisson, 15.8.2007 kl. 23:25

4 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Ég vona að þið hafið skrifað þessa sögu með að vökva afa í minningarbókina hans Birgis. En við hin vökvum bara lífsblómið af og til.

Já frændi, ég hef trúlega erft þessa "varkárni" líkt og þú .

Herdís Sigurjónsdóttir, 16.8.2007 kl. 07:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband