Úr máli í myndir

Hæ Blogga.

Við Birgir áttum gæðastund eftir leikskólann.  Fengum lánaða "dóra-dóra" malarskóflu og grófum tilraunaholur bakvið hús í tengslum við fyrirhugaðar pallaframkvæmdir í sumar.  Ekki það að þetta sé að bresta á, enda á undirbúningur málsins eftir að fara sína lögformlegu leið í kerfinu: hönnun (ég, Elfa og Frissi), deiliskipulag (ég legg til samþykktar hjá Elfu), umhverfismat (ég og granninn skiptumst á nokkrum orðum) og ef ekki verður um að ræða kærur hefjast framkvæmdir síðla sumars.  Nánar um það síðar.  Varðandi gerð þessara tilraunahola náðist ekki full samhæfing okkar feðga fyrr en á síðustu holu þegar Birgir gafst upp á að reyna að moka jafn óðum ofan í holuna sem ég var að moka upp úr.

Þegar við vorum búnir að fá nóg af greftrinum fórum við út að borða með pabba (Birgi afa) og meirihluta systkina minna, þar sem að gamli var í bænum (heyrir til tíðinda).  Þegar þjónustustúlkan tók á móti okkur og áttaði sig á fjöldanum stundi greið "....uhhh já.... Ok.... en...öööhh... ég er sko bara ein".  Hver á líka von á slíkri holskeflu þegar maður óskar eftir borði fyrir sig og börnin sín.  NB og ekki einu sinni full mannað.  Svona eftir á að hyggja var þetta náttúrulega snilldar svar.  Um að gera að tilkynna gestunum að þjónustufólkið sé því miður fáliðað í kvöld, í stað þess að ræsa út aukavakt.  Þetta var fínn matur en ég man náttúrulega ekkert hvað staðurinn hét.  Var þarna í gamla Geysishúsinu á móti Kaffi Reykjavík.  Þegar komið að því að spá í eftirrétt kom samstaða okkar systkinanna skírt í ljós þegar það var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að fara í ísbúðina á Hagamel (og kaupa þann gamla).  Reyndar sat Pétur hjá, en það er bara af því að hann er á bömmer yfir hagfræði-bumbunni sem síðasta sumar var strekktur six-pack.

Jæja Blogga mín nú ætla ég að prófa að taka næsta skrefið á blogg-brautinni og setja inn nokkrar myndir í albúmið hjá þér.  Talandi um systkini mín er ekki úr vegi að byrja á því að koma þeim hér fyrir sjónir umheimsins, enda fáir séð þennan annars einkar hlédræga hóp.  Komst reyndar að því að ég átti ekki alveg jafn góðar myndir af þeim öllum.  Ef einhverju þeirra finnst friðhelgi einkalífsins ógnað, verða þau bara að senda mér aðra betri mynd eða fara í meiðyrðamál.

Með systkinakveðju; Árni


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Álfhóll

Góður Árni.

Þekki þessi viðbrögð hjá fólki yfir myndarlegum fjölskyldum.  Einu sinni þegar pabbi minn fór út úr bænum með mig, systkini mín og mömmu var hann stoppaður af lögreglu og beðinn um hópferðaleyfi. 

Gunna

Álfhóll, 8.6.2007 kl. 09:08

2 Smámynd: Kolbrún Jónsdóttir

Sæll,

Mikið var gaman að fá að sjá mynd af Sibbu systur þinni, ég hef ekki séð hana í mörg ár og þú kannski bara skilar góðri kveðju til hennar frá mér:)

Kolbrún Jónsdóttir, 8.6.2007 kl. 12:32

3 identicon

Þetta færðu nú borgað gamli minn.  Af öllum myndum ...................

Þín sis S  

systir (IP-tala skráð) 11.6.2007 kl. 09:21

4 identicon

Ég sagði það Árni, nú verður Steinunn brjáluð! -Það má ekki vera vondur við Pálu manstu?

Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 11.6.2007 kl. 09:46

5 Smámynd: Álfhóll

Árni minn, hvað gerði Pála þér?

Gunna

Álfhóll, 12.6.2007 kl. 15:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband