Vanrækt bloggsíða

Sæl Blogga mín.

Ja ef umhyggja mín í þinn garð er ekki vanræksla þá veit ég ekki hvað.  Svona ef hægt er að tala um vanrækslu á bloggsíðu.  Reyndar kæmi það mér ekki á óvart ef reglugerðarverksmiðja Evrópubáknsins í Brussel ætti reglugerð sem tæki á umhyggju umráðmanna fyrir bloggsíðum sínum.  Svona rétt eins og reglugerðin um staðlaða stærð og lögun á agúrkum. 

Á daga mína hefur svo sem drifið bæði ýmislegt og ekkert.  Kom heim í morgun úr ráðstefnuferð til Vancouver á vesturströnd Kanada.  Falleg borg í skógi vaxinni bresku Columbíu.  Flugið út var í gegnum Baltemor og reyndist verða 5 tímum lengra en heimleiðin, þar sem US-Airlines fékk þá snilldar hugmynd að millilenda í Phenix sem er lengst niðri í rass og ró í Arizona fylki.  Þannig að 13 urðu flugtímarnir út en 8 heim.  

Í bílaútgerð heimilisins ganga hlutirnir alla vega.  Jeppinn ákvað að heddið hefði skilað sínu auk þess sem tími var kominn á nokkrar fóðringar og hosur.  Þannig fór lungað úr þar síðustu viku í bílaviðgerðir þar sem ég ætla ekki að reyna að eigna mér stóran hluta heiðursins.  Þegar ég kom svo heim frá Kanada var mín ástkæra búin að fara með frúarbílinn í skoðun.  Af athugasemdamiðanum að dæma má ljóst vera að það er enginn blekskortur hjá Aðalskoðun í Hafnarfirði.  Þannig að nóvember mánuður mun bjóða upp á meiri bílaviðgerðir. 

Svo er búið að gera aðra atlögu við gæsina og í þetta sinn á kaupamanns slóðir mínar á Snæfellsnesi.  Þrátt fyrir gríðarlegan fjölda af gæs sem gargaði og flaug skammt sunnan við okkur var áhugi þeirra á aðlaðandi kornakri okkar öllu minni en vonir stóðu til.  Ein gæs og sjö veiðimenn varð aðeins undir væntingum, en sólarupprásin var falleg og félagsskapurinn góður. 

Nú svo er það hugleiðslan sem er öll að gera sig og þeir eru ekki margir morgnarnir sem hafa fallið út.  Reyndar grunar mig að einhver eða einhverjir nákomnir hafi verið farnir að hafa áhyggjur af mér.  Að minnsta kosti að dæma af símtali sem ég fékk frá mér nákomnum.  Þar sem lýst var umhyggju fyrir minni andlegu líðan.  Ég sagði eins og var að mín andlega líðan væri bara með besta móti.  Þá kom í ljós að ég hefði síðast bloggað fyrir mánuði og þar minnst á hugleiðsluna, en lítið heyrst í mér síðan.  Spurning hvort að bloggið sé að verða svona eins og gamla Tilkynningarskylda íslenskra skipa, sem var þannig útfærð að ef skip tilkynnti sig ekki inn fyrir tiltekinn tíma var farið að kanna hvort ekki væri allt með felldu.  En sem sagt andlega heilsan er fín en verkefnastaðan búin að ver þétt.

Jæja Blogga segjum það gott í bili.  Ég þarf að fara að koma unglingnum í bælið áður en ég lek niður á lyklaborðið.

Með þéttri kveðju.

Árni


Hugleiðslan að gera sig.

Sæl Blogga mín.

Bíddu!? ......er ekkert komið inna síðuna síðan ég skrifaði þér síðast?  Ég sem er búinn að reyna að hugleiða til þín þessi reiðarinnar býsn af efni.  Væntanlega er skýringin sú að hugleiðsla hefur ekkert með það að gera að setja texta inn á vefsíður með hugarorku. En tveggja vikna hugleiðslunámskeiðið er nú hálfnað og ég hef verið samviskusamur við heimavinnuna.  Mér stóð reyndar ekki á sama þegar okkur var tjáð að best væri að hugleiða snemma á morgnanna.  Ég var bara ekki að sjá B-manninn Árna Birgisson fara að vaknað ennþá fyrr en snemma til þess að setjast á stól og byrja að temja hugann.  Viti menn, þetta hefur bara alls ekki verið nokkurt einasta mál og nú er staðan sú að ég er hættur að kvíða fyrir morgninum, miklu fremur um að ræða tilhlökkun.  Hversu undarlegt er nú það.  Að hlakka til að vakna hálftíma fyrr en venjulega.  Sem sagt eitthvað er þetta greinilega að gera fyrir mig og mæli ég með þessu við hvern sem er.   Ég hef reyndar ákveðið að gefa ekki of hástemmdar yfirlýsingar í upphafi.  Hef nefnilega runnið á rassinn með slíkt áður.  Saman ber það þegar ég ákvað fyrir 2 árum að hlaupa maraþon.  Bæði var ég ánægður með þá fyrirætlan, en ákvað að búa til smá auka pressu á mig og sagði því öllum sem heyra vildu að ég ætlað að hlaupa maraþon í ágúst.  Svo kom náttúrulega eitthvað óvænt upp á.  Æfingarnar urðu minni en til stóð og ekkert varð hlaupið.  Þá gerðist það sem ekki átti að gerast.  Vinir og kunningjar fóru að spyrja mig hvernig hefði gengið í maraþoninu og á hvaða tíma ég hefði hlaupið.  Ótrúlegt hvað fólk getur verið hnýsið í líf annarra.

Með andans kveðju; Árni


Það er þetta með muninn á strákum og stelpum

Hæ Blogga.

Þetta er búið að vera afslöppuð helgi.  Systur mínar komu á föstudaginn í mat til Elfu.  Svona stelpukvöld.  Af alkunnri hugulsemi var ákveðið að reka mig ekki að heiman, enda færi ég út í búð að kaupa handa þeim ís og sæi um að koma Birgi í háttinn.  Skilyrt dvöl á eigin heimili, þó ég kvarti ekki.  Á laugardaginn var svo íþróttaskóli barnanna í FH húsinu.  Þannig að nú er ég anti-boltamaðurinn orðinn FH-ingur.  Fyrir utan það að vera helsti stuðningsmaður KR í badminton, svona svo jöfn hollusta sé sýnd við íþróttaiðkun sona minna.  Það vill til happs að það er sami liturinn í búningum beggja liða.  Á sunnudag var ég vakin með kaffi, ristaðbrauð og blaðið í rúmmið.  Mér fannst þetta hljóta að vera afmælið mitt, en þegar stírurnar voru farnar sá ég að þetta var bara huggulegheit Elfu og Birgis.  Í hádeginu fórum við svo í mat til langömmu á elló.  Þar varð sonur minn mjög undrandi og skal ég segja þér frá því.  Smá aðdragandi að því atviki.  Birgir hefur verið að velta fyrir sér muninum á strákum og stelpum, svona eins og litlir strákar gera.  Pabbi er með tippi, Hringur er með tippi, Benni er með tippi og viti menn nú er hann búinn að átta sig á því að allir strákar hljóti að vera með tippi.  En mamma hún er ekki með tippi?!?!  Hún er þá ekki strákur?  Nei hún er stelpa.  Já hún er stelpa.  Ef stelpur eru ekki með tippi, hvað eru þær þá með?  Ekki veit ég afhverju, en það hefur einhvern veginn þróast þannig að við fórum að nota orðið budda.  Þannig að mamma er með buddu, amma Elín er með buddu og líka vínkonur Birgis á leikskólanum.  OK allar stelpur hljóta að vera með buddu.  Þetta er að verða nokkuð skírt huga sonar míns.  Víkur þá sögunni aftur á elliheimilið til langömmu, þar sem við erum að fara með henni niður í matsal í hádegissteik.  Þá segir langamma (sem veit ekkert um þetta tippa- og buddutal) við Birgi.  Jæja vil Birgir hjálpa langömmu að finna budduna sína. Birgir varð pínu skrítinn á svip.  Enn þá skrítnara fannst þó Birgi að langamma hans ætlaði að sækja miða í budduna sína til að borga fyrir hádegismatinn.  Kannski að við hefðum átt að kenna honum annað orð yfir kynfæri kvenna.

Með hugsandi kveðju; Árni


Hreysti og hugur með trukki og dýfu

Jæja Blogga mín.  Er ekkert að frétta af þér?

Allt í standi hérna megin.  Síðan síðast er trúlega það helst af mér að frétta að miðvikudagurinn var helgaður líkamanum og fimmtudagurinn huganum.  Hreyfingarmálin eru á svipuðum nótum og venjulega; helst til óregluleg.  Ég man ekki hvort ég var búinn að segja þér frá þér að doktorinn útskrifaði mig með astma og lét mig hafa púst til að fá smá búst.  Þannig að nú er það að vera andstuttur ekki lengur afsökun.  Þrátt fyrir hífandi rok og rigningu á miðvikudagskvöld fórum við Halldór að hlaupa og í beinu framhaldi af því í badminton.  Sem sagt brennsla í hámarki og þreytan eftir því.  Daginn eftir vissi ég vel af því að ég spila badminton ekki reglulega.  Ætli það sé ekki á svona 7 ára fresti.  Harðsperrurnar voru í sjálfu sér ekki það slæmar, en á stór undarlegum stöðum, þar sem Glutimus Maximus hafði fengið hvað mest að kenna á því.  Hvernig sem það fer nú heim og saman við badminton.  Á fimmtudagskvöldið sótti ég svo kynningu um hugleiðslu.  Það var mjög fróðlegt / forvitnilegt og stefni ég ótrauður á að kynna mér þetta nánar og er búinn að bóka mig á námskeið í næstu viku.  Þetta er tveggja vikna námskeið, samtals 8 kvöld.  Ætli það endi ekki með því að ég verði orðinn svo hugleiddur að ég þurfi ekki lengur að skrifa þér Blogga mín, heldur sendi þér bara hugskeyti.  Sjáum hvað setur.

Jæja en nú er komið kvöld og íþróttaskólinn hjá okkur Birgi í bítið.

Með heilsu kveðju; Árni


Birgir lasinn og gæsin horfin

Sæl frú Blogga.

Vorið kemur með Lóunni og haustið með hori í nösum barnanna.  Þannig að þetta var fyrsti dagurinn heima með veikt barn.  Biggi bar sig vel og var í raun hæst ánægður með að vera heima og láta dúlla við sig.  Hann áréttaði það reglulega með brosi á vör að hann væri lasinn og ætti að fá að vera heima.  Með engum fyrirvara ákváðum við Halldór að halda til heiðargæsaveiða.  Reyndar vorum við í allra síðasta lagi að leggja í hann klukkan rúmlega fimm.  Eftir að hafa tankað í Hrauneyjum var haldið inn á Búðarháls milli Þjórsár og Tungnár.  Þökk sé nýlegri brú létum við okkur nægja að virða fyrir okkur lúinn kláfinn sem augljóslega ber þess merki að hafa þjónað mörgum ferðalanginum.  Þegar inn á Hálsinn var komið voru víða komnir snjóskaflar á veginn og ekki jók það tiltrú okkar á árangur ferðarinnar.  Enda kom það fljótt í ljós vötn voru frosin og gæsin trúlega búinn að kveðja svæðið þetta árið.  Það var þó sárabót að ónefndur fugl flaug í veg fyrir hlaupið þegar við tókum æfingarskot og því komum við ekki alveg tómhentir heim, en það var alveg óvart.  Þannig að veiðiferðin varð meira svona 6 tíma bíltúr, sem ekki þarf að kvarta undan þegar félagsskapurinn er góður.

Með gæsa kveðju, Árni


Fyrirheitna landið, unglingsárin og siglandi brúðkaup

Sæl Blogga.

Jæja lífið heldur áfram.  Síðustu viku dvaldi ég vestan hafs (svona eins og það sé bara eitt haf og eitt vestan), sem sagt í fyrirheitna landinu, Ameríku hinni nyrðri.  Var þar í vinnuferð sem ég nenni náttúrulega ekki að kvelja þig með hér.  Þetta var hinn ágætasti túr og gagnlegur mjög.  Alltaf gaman að hitta Evu og Jack enda eins og eitt af heimilum okkar Biggýs.  Ég leigði bíl í ferðinni, vart í frásögu færandi nema hvað þegar starfsmaðurinn leit yfir bílinn (í kvöld rökkrinu) til staðfestingar á að þar væru engar skemmdir að sjá hnaut ég um hverja rispuna á fætur annarri og tók til við að benda honum á þær, svona svo hann færi nú ekki að rukka mig um skaðabætur þegar kæmi að skiladögum.  Hann brosti að einfeldni minni og sagði mér að í New York teldist ekki skemmd á bílaleigubíl nema ef rispan væri á stærð við golfkúlu eða beygla á stærð við tennisbolta.  En stuðararnir væru ekki einu sinni yfirfarnir, enda ekki óalgengt að menn noti stuðarana svona til að rýmka til í þröngum bílastæðum.  Svei mér þá ef Kosovo og New York deila ekki umferðamenningu upp að ákv. marki.  Það var notalegt að koma aftur heim og finna drengina hrjótandi sitt í hvoru fletinu.  Birgir rak upp stór augu þegar hann vaknaði og vatt sér strax að mér með orðunum: pabbi búinn Amíku....ammælipakka fy mi?!?!  Hringur var öllu seinni á fætur og fullljóst að pakkinn hans væri engin afmælisgjöf.  Það gerir væntanlega 11 ára aldursmunur. 

Talandi um Hring, þá er búið að vera skondið að fylgjast með breyttum svefnvenjum hans síðustu 2 árin.  Já það eru trúlega ekki nema svona tvö ár síðan hann vaknaði um helgar án undantekninga fyrir klukkan 8 og tók barnatímann með stæl.  Nú er staðan sú að hann vaknar um helgar án undantekninga ekki fyrir 11.  Sem sagt litli strákurinn minn er ekkert lengur lítill, heldur meira svona unglingur, en ósköp góður unglingur.

Laugardagskvöldið klæddum við hjónin okkur upp og skunduðum í brúðkaup til vinafólks okkar.  Þar var margt um manninn (ekki síst björgunarsveita manninn) og gleðskapur eftir því.  Veislan var haldin um borð í skipi við Reykjavíkurhöfn.  Þrátt fyrir haust rokið bar ekki mikið á veltingi, en einstaklega næmt jafnvægisskin konu minnar nam minnstu hreyfingu skipsins.  Skýri það fyrir fattlausum síðar.  Þannig að þegar hún fór að verða hvít og síðar græn var mál að halda heim á leið.  Reyndar var hún ákveðin á því að ég yrði áfram, en eftir klukkustundar lúr, í flugvélinni nóttina áður voru batteríin mín komin á rauðastrikið og því mál að fylgja konu sinni til kojs.

Með brúðkaups kveðju Árni


Hjólað og spólað

Sæl frú Blogga.  Jú jú bara mættur strax aftur.  Enda varð ég að standa við orð mín að líta oftar við hjá þér og slúðra í þig sögum úr því sem verið er að bedrífa.  Dagurinn í dag varð hjóladagurinn mikli.  Skömmu eftir að sólin var komin á loft fór ég með Tanna í mótorhjólatúr upp í Bolöldu og Jósepsdal.  Nei ekki er ég búinn að fjárfesta í mótorfák, en þar sem Tanni er giftur einum af keppendum á Íslandsmótinu í mótorkrossi býr hann svo vel að tvö mótorhjól eru til á heimilinu, (eða kannski öllu frekar er ég svo heppin að hjólin eru tvö).  Þetta var túr númer 2, því síðasta haust þeystum við frá Búrfelli og inn í Landmannahelli.  Yfirferðin í dag var öllu minni, en þeim mun meira af beygjum og ófærum, þar sem að brautirnar sem ekið er í eru augljóslega ekki lagðar með það sama að leiðarljósi og þegar almennir vegir eru lagðir.  Hér gildir að hafa nóg af hindrunum og ófærum.  Þökk sé góðri leiðsögn var nú ekki svo snúið að keyra gripinn (án þess að ég reyni að halda fram eigin færni) en það að komast í alla múnderinguna sem fylgir svona krossara, þar verður þetta fyrst snúið.  Það voru spelkur, olnbogahlífar, hnjáhlífar, brynjur, hjálmar, hálskragar o.fl.  Þannig að þegar allt var komið á sinn stað minnti maður helst á ofurvélmenni í framtíðarmynd.  Þegar við lögðum í hann átti Tanni kunnuglega setningu (svona a.m.k. innan vinahópsins) "Svo keyrum við bara létt svona til að byrja með".  Það næsta sem ég vissi var að ég horfði á eftir honum þar sem Vífilsfellið blasti við undir afturdekkinu.  Alla vega frábær ferð en frekar var ég nú orðinn lúinn eftir túrinn.  Þetta er bara púl og það er vel.  Þegar heim var komið var Birgir Þór ekki lengi að samþykkja hjólatúr um Fjörðinn.  Þetta varð nokkuð hefðbundinn túr um suðurbæinn, höfnina, tjörnin / lækurinn, Setbergið og svo með blóðbragð í munninn á leið upp í Áslandið.  Það er svona að gera sér heimili upp undir snælínu.  Það að fara út að hjóla með Birgi aftaná er ekkert síðra en að ráða sér einkaþjálfara í líkamsræktarstöð.  Ef slegið er slöku við er hann fljótur að góla ....hraðar....hraðar...pabbi áfram.  Þrátt fyrir að vilja ekki bregðast syninum reynist stundum nauðsynlegt að taka stuttar pásur og þar kemur tjörnin sterk inn.  Þökk sé öndum á drullupolli næst púlsinn aftur í samt lag, svona að minnsta kosti fyrir síðasta áfangann upp á brún Áslandsjökulsins.  Hringur var fjarri góðu gamni þar sem hann var að koma heim frá Krít með móðurfjölskyldunni og Elfa safnaði þrótti fyrir næstu viku á tamningarstöðinni.  Botninn var svo sleginn í daginn með ísskápaflutningum fyrir vini okkar í vesturbænum og svo lambasteik hjá momms. 

Þar hefur þú það Blogga mín.  Sofðu nú rótt.  Með hjóla kveðju; Árni


Gleði og glens í góðra vina hópi

Jæja Blogga.  Þú hefur verið vanrækt og biðst ég velvirðingar á því.  Ekki það að ég sé í miklu standi til að bæta úr því hér og nú, þar sem eftirhreytur frændsystkinateitis eru nú alls ráðandi.  Glimrandi gott teiti sem stóð til að ganga fimm í morgun.  Að öðrum ólöstuðum átti Pétur bróðir og Garðar hennar Kristínar bestu sprettina þar sem leyndir gítarhæfileikar komu hressilega í ljós.  Þar var sem sagt: étt, drekt, sungt, spjallað og spilað.  Þar sem nokkrir af lykilmönnum í stóra Pálumálinu vor þar saman komnir voru tekin létt skrens á helstu hápunktum málsins.  Reyndar vantaði nokkra af lykil mönnunum málsins, en kannski hæpið að þeir hefðu haft nokkuð gaman af því að rifja það upp.  Þegar viskíflaskan var að verða búin og söngrödd okkar bræðra farin að besta var mál að halda í koju.  Þannig að dagurinn hefur farið í að endurheimta þrek og gána á frjálsar íþróttir.  Ætli við segjum þetta ekki gott í bili Blogga mín, en ég reyni þess í stað að kíkja á þig sem fyrst aftur.

Með partý kveðju; Árni


Árni Birgisson; hreindýraveiðimaður

Sæl Blogga mín.  Ja nú er völlur á manni.  Því í gærkvöldi kom ég heim úr fjögurra daga hreindýratúr, þeim hinum fyrsta sem ég hef farið í, en alveg örugglega ekki þeim síðasta ef ég fæ einhverju um það ráðið.  Í valnum lá kýr og kálfur hennar.  Þetta var alvöru.  Mikið labb, miklar pælingar (þó meira af hálfu Sigurðar leiðsögumanns), mikið skriðið og loks mikið að bera.  Þetta er búið að vera langur undirbúningur: aukin skotvopnaréttindi, sækja um leyfi, skotæfingar, finna leiðsögumann, bóka gistingu og græja búnað.  Það var svo á miðvikudagskvöld sem við Halldór lögðum í hann með vesturíslenskan frænda hans með í för (sá reyndist vera meira í orði en á fæti).  Förinni heitið að Hólmi á Mýrum (skammt vestan við Hornafjarðarfljót).  Eftir punkteringu sem kallaði á aðstoð Björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hvolsvelli og útkall á dekkjaverkstæðið á Hellu renndum við í hlað á Hólmi um kl. 02:00.  Klukkan 06:30 var svo ræs og morgunmatur.  Reyndar voru allir vaknaðir klukkustund fyrir.  Þökk sé landnámshananum á bænum.  Við héldum síðan af stað með leiðsögumanni okkar Sigurði bónda Guðjónssyni á Borg (hreindýraskyttu til 35 ára) og var stefnan tekin á Heinabergsfjall.  Eftir að hafa skimað um fjallið í góða stund fannst u.þ.b. 10 dýra hjörð sunnarlega í fjallinu.  Leiðin að hjörðunum var látin ráðast af vindátt, enda þefskin hreindýra með endemum næmt.  Um klukkan hálf tólf fundum við dýrin í 380 metra hæð í litlum slakka.  Mér tókst að skríða í skjól við klett sem gaf um 170 metra færi.  Úr því varð þetta líka fína bógskot með þeim afleiðingum að kýrin lá kylliflöt.  Eftir hálftíma bið mæti kálfurinn og fylgdi því sem næst í fótspor móður sinnar.  Þá tók við klukkustundar puð að koma dýrunum niður að bíl þar sem fláningartækni Sigurðar fékk notið sín.  Það fór ekki á milli mála að þetta var hvorki fyrsta né hundrað og fyrsta dýrið sem hann fláði.  Þegar klukkan var orðin um 14 voru dýrin komin í kerru og minni veið lokið.  Nú var bara að finna tarfinn hans Halldórs og halda í bæinn.  Það ætlaði þó ekki að ganga þrauta laust.  Á þessum tíma árs halda kynin sig í aðskildum hjörðum og nú var haldið vestur í Sauðárdal í Suðursveit (skammt austan við æskuslóðir Þorbergs Þórðarsonar).  Þrátt fyrir mikið gán upp í fjöllin sáust engir tarfar og því lítið annað að gera en leggja á brattann.  Til að gera langa sögu stutta.  Örkuðum við inn eftir dalnum og upp undir Sauðártind í 800 hæð þar sem við fundum þrjá feiknar stóra tarfa, en eins og Sigurður orðaði það "Þessir tarfar lifa á vitinu".  Þar sem vindáttin var hæg og mjög breytileg, fengu þeir lykt af okkur og voru fljótir að stíma upp á topp, út eftir hryggnum og niður langt frá okkur.  Nú var klukkan að ganga tíu og lítið annað að gera en að arka niður og bóka aðra nótt í bændagistinguna að Hólmi.  Klukkan átta morguninn eftir var Sigurður leiðsögumaður mættur og nú var haldið inn Kálfafellsdal og þaðan upp svonefnt Nautagil sem liggur upp á fjallshrygg milli Kálfafellsdals og Hvannadals.  Þrátt fyrir mikla leit sást ekkert til tarfanna og því haldið suður eftir fjallshryggnum.  Upp úr kl. 14 fundum við tarfa en nú voru þeir orðnir 6 og engu minni en deginum áður.  Enn var sama áttleysan sem gerði okkur erfitt um vik þannig að úr varð fimm tíma eltingarleikur sem endaði með sigri Halldórs.  Tarfurinn var sannarlega stór en stærri var skriðan sem þurfti að koma honum niður þar sem hægt var að gera að honum.  Nú tók við heljarinnar fjallabjörgunarverkefni sem gekk út á það að böndum var komið á tarfinn og honum slakað eina 300 metra niður snarbratta hlíðina.  Þar var smá túnsilla þar sem hægt var að gera að tarfinum en fyrir höndum var eins og hálfstíma gangur niður í bíl.  Lúnir en sælir komum við niður í bíl í kolniða myrkri með lærin tvö og krúnuna, en restin varð að bíða næsta dags.  Það sem átti að vera ein gisti nótt var nú orðið að þremur.  Líkt og áður var næsti dagur tekin snemma og um kl. 14 var búið að úrbeina tarfinn uppi í fjalli og koma öllu niður í bíl.  Eftir að hafa kvatt Sigurð var loks lagt af stað til Reykjavíkur.  Það er ekki gott að eiga heila hreindýrafjölskyldu í kerru og kunna ekki að úrbeina, en það er gott að eiga bóngóðan föður vestur á fjörðum sem hefur áratuga reynslu af úrbeiningum.  Vel austur fyrir Hellu vorum við Halldór enn á því að keyra bara í einni beit vestur á Ísafjörð þar sem pabbi ætlaði að bjarga okkur úr þessari stöðu sem við vorum komnir í.  En þrátt fyrri orkudrykki og gagnkvæma hvatningu fjaraði orkan hægt og bítandi út.  Ég hringdi í pabba og tjáði honum hvernig staðan væri.  Það stóð ekki á svari: "Auðvitað væri gaman að fá ykkur vestur.  Þið gætuð kannski hjálpað til við uppvaskið.  Ég sé um úrbeininguna".  Ekki veit ég hvor okkar Halldórs varð fegnari.  En þannig er nú komið fyrir þessari víðförlu hreindýrafjölskyldu að hún er nú komin vestur á firði þar sem hún mun dvelja fram eftir vikunni.

Já Blogga.  Nú er maður bara orðinn hreindýraveiðimaður og frekar stoltur þar að auki.  (Tvær myndir fyrir þá sem ekki eru viðkvæmir í albúmi).

Með hreindýrakveðju. Árni


Garðyrkja, siglingar og kappreiðar

Sæl gamla mín.

Nú jæja.  Þetta er búið að vera nokkuð hefðbundið eftir að vinnan heltist yfir að loknu sumarfríi.  Vinna sofa éta.  Verslunarmannahelgin var tekin með ró.  Á mánudeginum fórum við hjónin með bræðurna í kirkjugarðinn að dytta að leiði Árna (langafa).  Birgir var alveg með á því hver hvíldi þarna enda keyrum við fram hjá garðinum til og frá heimili okkar.  Þetta er langi afi.  Eftir minniháttar snyrtingar og vökvun, sem Birgir sýndi mikinn áhuga og tók virkan þátt í, var tölt heim á leið.  Ekki veit ég hvað konan hugsaði sem við mættum á göngustígnum þegar Birgir sagði í óspurðum að við hefðum verið dugleg að vökva langafa.  Eftir garðyrkjustörf og síðdegiskaffi hélt stórfjölskyldan í siglingu á skipinu mínu.  Já Blogga mín maður er náttúrulega útgerðamaður, svona í hjáverkum.  Reyndar er þetta ekki alveg skip.  Meira svona bátur; sko ekkert mjög stór bátur en samt með hörðum botni þó hliðarnar séu í formi loftfylltrar slöngu.  Svei mér þá ef Birgir Þór hefur ekki erft bæði varkárni móður sinnar og föður.  Honum stökk ekki bros og hafði engan áhuga á að stýra.  Hringur aftur á móti sat í stafni og fagnaði hverri öldunni sem hnikað gat bátnum.  Eftir vænan hring um Hafnarfjarðarhöfn fóru Birgir og Elfa í land en við Hringur fullnýttum öll 70 hestöfl bátsins á leið okkar út fyrir Álftanes og inn í Straumsvík.  Við skemmtum okkur ljómandi vel enda orðið langt síðan við fengum okkur salibunu síðast.  Miðað við það sem fyrir augu bar á leiðinni, lítur ekki vel út með svartfuglsveiðar í haust.

Síðasta vika var nokkuð hefðbundin.  Birgir fór á leikskólann, sem var honum fannst als ekki gaman.  Reyndar virtust flest börnin sammála um að það væri best að vera áfram heima eða hafa mömmu og pappa með í leikskólanum.  Hringur er kominn, þriðja árið í röð, á badminton námskeið hjá TBR og kann hann því mjög vel, eða eins og hann orðar það "þetta er íþróttin mín".  Ja ekki er hægt að segja að hann hafi farið á mis við fótboltaáhuga föður síns.

Um síðustu helgi fórum við Elfa með vinkonum hennar úr Hússtjórnarskólanum hina árlegu "útilegu", þar sem þó aldrei er legið úti, en þeim mun betur gert við sig í mat og drykk.  Að þessu sinni dvöldum við á jörð landnámsmannsins Ingimundar Gamla að Hofi í Vatnsdal.  Reyndar er Ingimundur hættur búskap og Jón nokkur Gíslason tekinn við jörðinni og rekur þar ferðamanna og hestabú ásamat Eline Schrijver eiginkonu sinni.  Meira um það hér.  Þetta var hin ljúfast dvöl í góðum félagsskap.  Guðjón fyrrum nágranni Jóns bónda var bústjóri á meðan við dvöldumst þarna.  Við spurðum Guðjón hvort ekki væru möguleiki að komast á hestbak.  Jú, það var auðsótt, enda hestaræktun verið stunduð á bænum til fjölda ára.  Enn þeir væru allir viljugir og bara fyrir vana hestamenn, eða eins og Guðjón lýsti eiginleikum góðs reiðhests: þú átt að geta sett hann í drive og svo bara rennur hann áfram eins og góður bíll.  Flestir í hópnum unnu úr þessum upplýsingum af skynsemi, en við vorum þrír sem kepptumst við að sannfæra hvorn annan að við værum nú bara þó nokkuð vanir, þrátt fyrir að hafa aldrei stundað hestamennsku umfram það að fara á bak í sveitinni og svo stöku hestaleigu ferð.  Ekki var til baka snúið og söðlaðir 5 spengilegir hestar.  Öllu hærri og grennri en þeir sem maður á að venjast á hestaleigunum.  Guðjón og sonur hans hjálpuðu okkur að stilla hnakka, beisli og hjálma.  Við fengum stutta leiðsögn sem fyrst og fremst snérist um það að halda þétt í beisli og hemja hesta.  Það er eins og mig minnti að áherslur samskonar leiðsögu á hestaleigum væri með eitthvað öðrum áherslum.  Svo lögðum við í hann.  Við vorum rétt komnir af stað þegar áherslur leiðsagnarinnar tóku að skírast.  Það mátti ekki gefa minnsta slaka á taumnum því þá var eins og drive-ið yrði over-drive.  Nú gilti að vera sterkur í höndunum.  Allt gekk þetta eins og í sögu þar sem við geystumst upp með bökkum Vatnsdalsár og jóreykurinn þyrlaðist út frá slöð okkar.  Mér leið eins og ég væri staddur í einhverri Íslendingasögu þar sem næstu setningar væri eitthvað á þá leið: "Riðu þar fimm vörpulegir menn og fóru mikinn.  Áttu þeir sér fáa jafningja á hestbaki" .  Þegar ég, hesturinn og náttúran vorum um það bil að verða eitt kom að því að við þurftum að ríða yfir ánna en handan við ánna opnuðust stór nýslegin tún.  Hestarnir virtust mjög ákveðnir þar sem þeir ösluðu yfir ánna, með þeim afleiðingum að við blotnuðum upp undir hné.  Og svo gerðist það.  Þegar hestarnir komu upp á túnið var eins og þeim héldu engin bönd og nú hófust jafnvægislistir upp á líf og dauða (svona eins og það leit út fyrir mér á þeirri stundu).  Hesturinn rauk beint af augum og það var eins hann vissi ekki af mér.  Alla vega var honum slétt sama um tilburði mína við að ná stjórn á ferðinni.  Það var ekki fyrr en handan við túnið, melinn sem tók þar við og þúfurnar þar fyrir handan að mér tókst loks að stöðva hestinn.  Ég veit svei mér ekki hvort hjartað sló hraðar; hestsins eða mitt.  Þegar kom að næsta túni fann ég mér gott grip í hnakkbótinni og hélt þar dauða haldi þar til umhverfið virtist vinna með mér í því að ég myndi ná að hægja á för hestsins.  Allt hafðist þetta nú að lokum.  Það var ekki laust við að við værum nokkuð sperrtir þegar við komum til baka að hitta hópinn.  Við voru ósparir á frásgnirnar þetta kvöldið.  Það er sem sagt munur á hesti og hest.

Með knapa kveðju, Árni

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband