Hjólað og spólað

Sæl frú Blogga.  Jú jú bara mættur strax aftur.  Enda varð ég að standa við orð mín að líta oftar við hjá þér og slúðra í þig sögum úr því sem verið er að bedrífa.  Dagurinn í dag varð hjóladagurinn mikli.  Skömmu eftir að sólin var komin á loft fór ég með Tanna í mótorhjólatúr upp í Bolöldu og Jósepsdal.  Nei ekki er ég búinn að fjárfesta í mótorfák, en þar sem Tanni er giftur einum af keppendum á Íslandsmótinu í mótorkrossi býr hann svo vel að tvö mótorhjól eru til á heimilinu, (eða kannski öllu frekar er ég svo heppin að hjólin eru tvö).  Þetta var túr númer 2, því síðasta haust þeystum við frá Búrfelli og inn í Landmannahelli.  Yfirferðin í dag var öllu minni, en þeim mun meira af beygjum og ófærum, þar sem að brautirnar sem ekið er í eru augljóslega ekki lagðar með það sama að leiðarljósi og þegar almennir vegir eru lagðir.  Hér gildir að hafa nóg af hindrunum og ófærum.  Þökk sé góðri leiðsögn var nú ekki svo snúið að keyra gripinn (án þess að ég reyni að halda fram eigin færni) en það að komast í alla múnderinguna sem fylgir svona krossara, þar verður þetta fyrst snúið.  Það voru spelkur, olnbogahlífar, hnjáhlífar, brynjur, hjálmar, hálskragar o.fl.  Þannig að þegar allt var komið á sinn stað minnti maður helst á ofurvélmenni í framtíðarmynd.  Þegar við lögðum í hann átti Tanni kunnuglega setningu (svona a.m.k. innan vinahópsins) "Svo keyrum við bara létt svona til að byrja með".  Það næsta sem ég vissi var að ég horfði á eftir honum þar sem Vífilsfellið blasti við undir afturdekkinu.  Alla vega frábær ferð en frekar var ég nú orðinn lúinn eftir túrinn.  Þetta er bara púl og það er vel.  Þegar heim var komið var Birgir Þór ekki lengi að samþykkja hjólatúr um Fjörðinn.  Þetta varð nokkuð hefðbundinn túr um suðurbæinn, höfnina, tjörnin / lækurinn, Setbergið og svo með blóðbragð í munninn á leið upp í Áslandið.  Það er svona að gera sér heimili upp undir snælínu.  Það að fara út að hjóla með Birgi aftaná er ekkert síðra en að ráða sér einkaþjálfara í líkamsræktarstöð.  Ef slegið er slöku við er hann fljótur að góla ....hraðar....hraðar...pabbi áfram.  Þrátt fyrir að vilja ekki bregðast syninum reynist stundum nauðsynlegt að taka stuttar pásur og þar kemur tjörnin sterk inn.  Þökk sé öndum á drullupolli næst púlsinn aftur í samt lag, svona að minnsta kosti fyrir síðasta áfangann upp á brún Áslandsjökulsins.  Hringur var fjarri góðu gamni þar sem hann var að koma heim frá Krít með móðurfjölskyldunni og Elfa safnaði þrótti fyrir næstu viku á tamningarstöðinni.  Botninn var svo sleginn í daginn með ísskápaflutningum fyrir vini okkar í vesturbænum og svo lambasteik hjá momms. 

Þar hefur þú það Blogga mín.  Sofðu nú rótt.  Með hjóla kveðju; Árni


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnþór Helgason

Vel af sér vikið. Sjálfur hef ég ekki hjólað í rúman mánuð. Tek ndir að Birgir Þór sé orkuríkur.

Arnþór Helgason, 17.9.2007 kl. 20:31

2 identicon

Ma eg giska, isskapaflutningarnar voru thad skemmtilegasta... takk fyrir ad jarda hann fyrir mig. Kært heils til Elfu og Bigga.

Gunna (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 14:10

3 identicon

Hæ kaupamaður. gott að þú hefur einhvern hjálparkokk í líkamsræktinni. Allt gott héðan, kornþresking að byrja á fullu, smalir (eins og góður maður kallaði það) að hefjast og fleiri hefðbundin haustverk. Ætla benda þér á  að Tamningastöðin Söðulsholti er komin með þessa fínu heimasíðu sem yngri dóttirin á mestan heiður af. hún er annars byrjuð í Hamrahlíð og líkar bara vel. Soldið eriftt samt að hafa ekki kisu og hundinn og pabba og mömmu líka. Kveðjur úr sveitinni.

 PS Þverárrétt er á sunnudaginn

Halla

halla dalsmynni (IP-tala skráð) 20.9.2007 kl. 00:11

4 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Duglegur strákur...hvaðan ætli Birgir Þór hafi þennan kraft .

kveðja úr Mosfellsbænum, þar sem NB eru nú aldeilis góðir hjólastígar.

Herdís Sigurjónsdóttir, 21.9.2007 kl. 22:17

5 identicon

Lesið í Sarajevo.  Hvernig er þetta með Herdísi, á hún ekki að vera að læra, hún er út um allan netheim, kvittandi.

Annars er fín hjólasaga til hér.  2 finnar fóru í ,,smá" hjólatúr. Fengu leiðbeiningar hjá Eistlendingi. Ætluðu stuttan en góðan 60 km. hjólatúr.  Villtust, túrinn reyndist 160 km. og þeir lentu í brjáluðu veðri.  Allir komu þeir þó aftur, sveittir og þreyttir eins og þú.

Guðm. Fylkis (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 09:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband