Árni Birgisson; hreindýraveiðimaður

Sæl Blogga mín.  Ja nú er völlur á manni.  Því í gærkvöldi kom ég heim úr fjögurra daga hreindýratúr, þeim hinum fyrsta sem ég hef farið í, en alveg örugglega ekki þeim síðasta ef ég fæ einhverju um það ráðið.  Í valnum lá kýr og kálfur hennar.  Þetta var alvöru.  Mikið labb, miklar pælingar (þó meira af hálfu Sigurðar leiðsögumanns), mikið skriðið og loks mikið að bera.  Þetta er búið að vera langur undirbúningur: aukin skotvopnaréttindi, sækja um leyfi, skotæfingar, finna leiðsögumann, bóka gistingu og græja búnað.  Það var svo á miðvikudagskvöld sem við Halldór lögðum í hann með vesturíslenskan frænda hans með í för (sá reyndist vera meira í orði en á fæti).  Förinni heitið að Hólmi á Mýrum (skammt vestan við Hornafjarðarfljót).  Eftir punkteringu sem kallaði á aðstoð Björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hvolsvelli og útkall á dekkjaverkstæðið á Hellu renndum við í hlað á Hólmi um kl. 02:00.  Klukkan 06:30 var svo ræs og morgunmatur.  Reyndar voru allir vaknaðir klukkustund fyrir.  Þökk sé landnámshananum á bænum.  Við héldum síðan af stað með leiðsögumanni okkar Sigurði bónda Guðjónssyni á Borg (hreindýraskyttu til 35 ára) og var stefnan tekin á Heinabergsfjall.  Eftir að hafa skimað um fjallið í góða stund fannst u.þ.b. 10 dýra hjörð sunnarlega í fjallinu.  Leiðin að hjörðunum var látin ráðast af vindátt, enda þefskin hreindýra með endemum næmt.  Um klukkan hálf tólf fundum við dýrin í 380 metra hæð í litlum slakka.  Mér tókst að skríða í skjól við klett sem gaf um 170 metra færi.  Úr því varð þetta líka fína bógskot með þeim afleiðingum að kýrin lá kylliflöt.  Eftir hálftíma bið mæti kálfurinn og fylgdi því sem næst í fótspor móður sinnar.  Þá tók við klukkustundar puð að koma dýrunum niður að bíl þar sem fláningartækni Sigurðar fékk notið sín.  Það fór ekki á milli mála að þetta var hvorki fyrsta né hundrað og fyrsta dýrið sem hann fláði.  Þegar klukkan var orðin um 14 voru dýrin komin í kerru og minni veið lokið.  Nú var bara að finna tarfinn hans Halldórs og halda í bæinn.  Það ætlaði þó ekki að ganga þrauta laust.  Á þessum tíma árs halda kynin sig í aðskildum hjörðum og nú var haldið vestur í Sauðárdal í Suðursveit (skammt austan við æskuslóðir Þorbergs Þórðarsonar).  Þrátt fyrir mikið gán upp í fjöllin sáust engir tarfar og því lítið annað að gera en leggja á brattann.  Til að gera langa sögu stutta.  Örkuðum við inn eftir dalnum og upp undir Sauðártind í 800 hæð þar sem við fundum þrjá feiknar stóra tarfa, en eins og Sigurður orðaði það "Þessir tarfar lifa á vitinu".  Þar sem vindáttin var hæg og mjög breytileg, fengu þeir lykt af okkur og voru fljótir að stíma upp á topp, út eftir hryggnum og niður langt frá okkur.  Nú var klukkan að ganga tíu og lítið annað að gera en að arka niður og bóka aðra nótt í bændagistinguna að Hólmi.  Klukkan átta morguninn eftir var Sigurður leiðsögumaður mættur og nú var haldið inn Kálfafellsdal og þaðan upp svonefnt Nautagil sem liggur upp á fjallshrygg milli Kálfafellsdals og Hvannadals.  Þrátt fyrir mikla leit sást ekkert til tarfanna og því haldið suður eftir fjallshryggnum.  Upp úr kl. 14 fundum við tarfa en nú voru þeir orðnir 6 og engu minni en deginum áður.  Enn var sama áttleysan sem gerði okkur erfitt um vik þannig að úr varð fimm tíma eltingarleikur sem endaði með sigri Halldórs.  Tarfurinn var sannarlega stór en stærri var skriðan sem þurfti að koma honum niður þar sem hægt var að gera að honum.  Nú tók við heljarinnar fjallabjörgunarverkefni sem gekk út á það að böndum var komið á tarfinn og honum slakað eina 300 metra niður snarbratta hlíðina.  Þar var smá túnsilla þar sem hægt var að gera að tarfinum en fyrir höndum var eins og hálfstíma gangur niður í bíl.  Lúnir en sælir komum við niður í bíl í kolniða myrkri með lærin tvö og krúnuna, en restin varð að bíða næsta dags.  Það sem átti að vera ein gisti nótt var nú orðið að þremur.  Líkt og áður var næsti dagur tekin snemma og um kl. 14 var búið að úrbeina tarfinn uppi í fjalli og koma öllu niður í bíl.  Eftir að hafa kvatt Sigurð var loks lagt af stað til Reykjavíkur.  Það er ekki gott að eiga heila hreindýrafjölskyldu í kerru og kunna ekki að úrbeina, en það er gott að eiga bóngóðan föður vestur á fjörðum sem hefur áratuga reynslu af úrbeiningum.  Vel austur fyrir Hellu vorum við Halldór enn á því að keyra bara í einni beit vestur á Ísafjörð þar sem pabbi ætlaði að bjarga okkur úr þessari stöðu sem við vorum komnir í.  En þrátt fyrri orkudrykki og gagnkvæma hvatningu fjaraði orkan hægt og bítandi út.  Ég hringdi í pabba og tjáði honum hvernig staðan væri.  Það stóð ekki á svari: "Auðvitað væri gaman að fá ykkur vestur.  Þið gætuð kannski hjálpað til við uppvaskið.  Ég sé um úrbeininguna".  Ekki veit ég hvor okkar Halldórs varð fegnari.  En þannig er nú komið fyrir þessari víðförlu hreindýrafjölskyldu að hún er nú komin vestur á firði þar sem hún mun dvelja fram eftir vikunni.

Já Blogga.  Nú er maður bara orðinn hreindýraveiðimaður og frekar stoltur þar að auki.  (Tvær myndir fyrir þá sem ekki eru viðkvæmir í albúmi).

Með hreindýrakveðju. Árni


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Glæst frændi.. hver veit nema ég eigi eftir að þrófa þetta some day

Herdís Sigurjónsdóttir, 28.8.2007 kl. 08:51

2 Smámynd: Álfhóll

Árni minn, þetta var imponerandi veiðisaga. Vona samt að þetta hafi ekki verið fallega fjölskyldan sem ég sá rétt austan við Höfn í vor.........

Góður eins og alltaf

Gunna

Álfhóll, 28.8.2007 kl. 22:50

3 identicon

Frábært framtak hjá þér stóribróðir.  Hlakka mikið til að koma í hreindýraveislu til þín nammi namm.......

Tekur þig vel út með kýrina.

Kv

Snjólaug (IP-tala skráð) 29.8.2007 kl. 10:22

4 Smámynd: Kolbrún Jónsdóttir

Er það Halldór Hafsteinsson sem er með þér?

Kolbrún Jónsdóttir, 29.8.2007 kl. 19:19

5 Smámynd: Árni Birgisson

Jú Kolla, Hafsteinsson er maðurinn sá hinn sami og kom upp í hug þinn.

Árni Birgisson, 30.8.2007 kl. 21:52

6 identicon

Þú ert ótrúlegur! Förum saman fyrr en varir, er alveg að fara á byssunámskeið. Ekkert smá töff!

Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 10.9.2007 kl. 22:22

7 identicon

Hæ Árni frændi

Má ég nota ofninn þinn á morgun í 7 mínútur svo ég geti boðið uppá ljúfengar veitingar?

Sjáumst á morgun ef ekki fyrr í fjölmiðlum, 

Krissa Hryssa 

Kristín Tómasdóttir (IP-tala skráð) 13.9.2007 kl. 21:42

8 Smámynd: Árni Birgisson

Ofninn er allur þinn.

Árni Birgisson, 13.9.2007 kl. 22:06

9 identicon

Ég er ekki viss hvort var skemmtilegra að lesa, söguna um hreindýraveiðiferðina eða kommentið á bloggi Sóleyjar um Pálu.  Kveðja frá Sarajevo.

Guðm. Fylkisson (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 11:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband